Skoðun

Menning og fjár­lög

Jódís Skúladóttir skrifar

Við sem erum utan af landi vitum hvað aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu og góðu samfélagi. Listir og menning efla félagsleg samskipti ólíkra einstaklinga og hópa, styrkja þekkingarleit og nýsköpun í samfélaginu auk þess sem blómlegt menningarlíf dregur úr hættu á félagslegri og menningarlegri einangrun og eykur hamingju og vellíðan.

Þetta er einkar mikilvægt á landsbyggðinni þar sem lífleg menningarstarfsemi sem vel er hlúð að verður oft lífæð samfélagsins í félagslegu tilliti. Um þennan þátt samfélagsins er mikilvægt að standa vörð.

Í störfum mínum í fjárlaganefnd Alþingis hef ég séð fjölmargar óskir um styrkveitingar innan þessa málefnasviðs meðal annars frá smærri söfnum og öðrum menningarstofnunum víða um land. Staðbundnar menningarstofnanir svo sem söfn og listasetur eru ekki síður mikilvægur hluti af samfélögum á landsbyggðinni en aðrir þættir sem snúa að veraldlegri þörfum. Söfnun, skráning, varðveisla, rannsóknir og miðlun eru allt mikilvægir þættir þegar kemur að menningararfinum en ekki síður að sjálfsmynd samfélaga og upplifun íbúa og gesta á svæðisbundinni sögu og menningu.

Í hinu stóra samhengi er kannski ekki um stórkostlegar fjárhæðir að ræða en þær geta skipt sköpum í rekstri safna og menningarstofnana að ótöldum oft óvæntum atvinnutækifærum og afleiddum áhrifum á skapandi greinar sem njóta góðs af slíkum fjárveitingum. Til mikils er að vinna að gefa bæði heimafólki og gestum innsýn í mikilvæga sögu og menningu lands og þjóðar.

Við hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði höfum lagt áherslu á mikilvægi fjölbreytts og öflugs menningarlífs um allt land og þýðingu þess að styrkja menningarstarfsemi víða um land með það að markmiði að stuðla að jafnara aðgengi allra landsmanna að listum og menningu.

Fjölbreytt menning styrkir íslenskt samfélag og er þáttur í lífsgæðum í landinu. Öflug menningarstarfsemi á landsbyggðinni styður við byggðastefnu stjórnvalda og gerir hinar dreifðu byggðir landsins að fýsilegri búsetukosti með líflegum samfélögum og fjölbreyttum tækifærum.

Höfundur er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðurlandskjördæmi eystra.




Skoðun

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×