Handbolti

„Hálfsvekkt að hafa ekki staðið betri vörn fyrir hana“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thea segir leikinn við Frakka hafa falið í sér mikinn lærdóm.
Thea segir leikinn við Frakka hafa falið í sér mikinn lærdóm. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Thea Imani Sturludóttir er klár í slaginn fyrir leik Íslands við Angóla á HM kvenna í handbolta í dag. Sæti í milliriðli er undir.

Ísland tapaði fyrir afar sterkum Ólympíumeisturum Frakka í fyrradag. Thea segir liðið draga lærdóm af þeim leik.

Klippa: Spennt fyrir leik dagsins

„Það var bara lærdómur. Við getum lært gríðarlega mikið af þessu. Við mættum Noregi á æfingamótinu og núna Frökkum. Það er munur á þessum liðum og öðrum sem við höfum spilað við,“ segir Thea sem hrósar Elínu Jónu Þorsteinsdóttur sem átti stórleik í markinu gegn Frakklandi.

„Hún var geggjuð. Það var svo gaman að sjá hana í markinu. Maður var hálfsvekktur að hafa ekki staðið betri vörn fyrir hana. Hún var að gera okkur svo marga greiða.“

Það sem þarf helst að bæta fyrir leik dagsins er að byrja leikinn vel. Ísland var í veseni í byrjun í fyrstu tveimur leikjunum, bæði gegn Slóveníu og Frakklandi.

„Við tókum alveg eftir því að báðir leikir byrjuðu ekki nógu vel og við erum að reyna að finna út af hverju. Við munum mæta brjálaðar í næsta leik og förum í hann til að vinna,“ segir Thea sem er spennt fyrir því að mæta Angóla í dag.

„Þetta er bara skemmtilegt og spennandi. Ég er tilbúin í þetta. Þegar riðillinn var dreginn hugsaði maður um Angóla en við vissum að það þýðir ekkert að vanmeta þær. Þær eru drulluseigar og góðar í handbolta. Þær spila skemmtilegan bolta sem við erum ekki vanar að sjá á Íslandi. Við þurfum að mæta brjálaðar í þennan leik og búast við öllu. Þá held ég að þetta geti orðið helvíti skemmtilegt.“ segir skyttan Thea sem setur stefnuna á milliriðil í Þrándheimi.

„Já, klárlega við viljum það.“

Ísland mætir Angóla klukkan 17:00 í dag og verður leiknum lýst beint á Vísi. Landsliðinu er fylgt eftir hvert fótmál fram að leik og allar helstu fréttir af liðinu koma á Vísi um leið og þær berast.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×