Handbolti

Andri og Viggó at­kvæða­mestir í öruggum sigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Viggó Kristjánsson heldur áfram að sýna snilli sína í þýsku úrvalsdeildinni
Viggó Kristjánsson heldur áfram að sýna snilli sína í þýsku úrvalsdeildinni Getty/Hendrik Schmidt

Rúnar Sigtryggsson stýrði Íslendingaliðinu Leipzig til 20-19 sigurs á Erlangen í spennandi og mjög kaflaskiptum leik. Viggó Kristjánson leiddi markaskorun Leipzig með 8 mörk, Andri Már Rúnarsson fylgdi honum eftir með 5 mörk.

Erlangen byrjaði leikinn vel og komst snemma tveimur mörkum yfir, en þá fékk Cristopher Bissel tveggja mínútna brottvísun og gaf Leipzig færi á að jafna leikinn. Leipzig nýtti tækifærið vel, skoraði úr næstu þremur sóknum og var skyndilega komið marki yfir.

Erlangen elti þessa eins marks forystu allan fyrri hálfleikinn og tókst loks á lokamínútunni að komast aftur yfir en Viggó Kristjánsson jafnaði leikinn fyrir Leipzig á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks.

Þeir félagar, Andri og Viggó, spiluðu svo vel saman í upphafi seinni hálfleiks. Skoruðu og lögðu upp á hvorn annan til skiptis á meðan Leipzig brunaði fram úr gestunum.

Þegar tæpar níu mínútur voru eftir leiddi Leipzig með fimm mörkum en þá tóku gestirnir ótrúlegt áhlaup, skoruðu fjögur í röð og hleyptu engu inn fyrir hinum megin. Skyndilega munaði aðeins einu stigi og enn var nægur tími til stefnu.

Bæði lið skelltu þó í lás síðustu tvær mínúturnar og mörkin urðu ekki fleiri. Eins marks sigur Leipzig í hús og þeir koma sér upp í 7. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×