Skoðun

Hvernig hefur aukin fræðsla á­hrif á ung­menni?

Vigdis Kristin Rohleder skrifar

Fræðsla getur þjónað sem öflugt tæki í baráttu gegn ofbeldi, einkum kynbundnu ofbeldi hjá ungmennum. Með aukinni fræðslu er hægt að efla vitund, stuðla að jafnrétti, þróa gagnrýna hugsun og miðla þekkingu og tilheyrandi verkfærum sem þarf til að skapa öruggara samfélag.

Fræðsla getur veitt ungmennum þekkingu og upplýsingar um mikilvægi jafnréttis kynjanna þar sem öll kyn njóta góðs af kynjajafnrétti. Skólar geta staðið að herferðum til að hjálpa nemendum að skilja og gera grein fyrir mismunandi tegundum kynbundins ofbeldis. Nemendur sem skilja og skynja valdbeitingu geta betur staðið gegn henni. Fræðsla ýtir undir gagnrýna hugsun sem gerir einstaklingum kleift að efast um samfélagsleg viðmið og ögra skaðlegum viðhorfum sem viðhalda kynbundnu ofbeldi. Gagnrýnin hugsun getur gert nemendum kleift að greina og fyrirbyggja grunnorsakir kynbundins ofbeldis og stuðlað að upplýstara samfélagi þar sem samkennd er ríkjandi. Með aukinni kynfræðslu geta nemendur lært um samþykki og grundvallaratriði heilbrigðra samskipta. Með því að efla jákvæð gildi í samböndum hjálpar fræðsla að skapa menningu sem hafnar neikvæðri hegðun og ýtir undir virðingu og skilning. Með aukinni þjálfun kennara og starfsfólks getum við bætt stuðningsnet þolenda. Með bættum viðbrögðum kennara og starfsmanna þegar tilkynning um ofbeldi á sér stað geta ungmenni frekar treyst á að þau fái þá aðstoð sem þau þurfa. Ungmenni sem fá fræðslu um virðingarfull sambönd eru líklegri til að bera þessi gildi inn í sín fullorðinsár og slíta vítahring ofbeldis sem hefur fylgt kynslóð eftir kynslóð. Með því að kenna ágreinings- og samskiptafærni stuðlar fræðsla að því að skapa samfélag sem metur athafnir án ofbeldis til að leysa deilur.

Í samfélaginu í dag eru í gangi ýmis átök og herferðir sem miða að því að binda enda á kyndbundið ofbeldi en til að skilaboðin nái til allra ungmenna þarf að miðla þeim á stærra sviði. Við krefjumst aukinnar fræðslu í skólum, aukinna (virðingarfullra) umræðna og að stofnanir samfélagsins grípi til frekari aðgerða til að binda enda á ofbeldi, einkum kynbundið ofbeldi. Látum fræðslu ekki vera val heldur skyldu til að byggja upp öruggt umhverfi. Með bættri fræðslu getur komandi kynslóð stuðlað að bættu samfélagi.

Höfundur er varaforseti ungmennaráðs UN Women á Íslandi. Greinin er birt í tengslum við alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×