Handbolti

Dómaramútur og skrautsendingar í harðri jólakeppni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sunna ætlar sér sigur ásamt herbergisfélaganum.
Sunna ætlar sér sigur ásamt herbergisfélaganum. VÍSIR / PAWEL

Herbergisfélagarnir Sunna Jónsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir ætla sér sigur í jólaskreytingakeppni milli landsliðskvenna í handbolta í kvöld. Slegið var til keppninnar milli herbergja til að létta á stressi kvöldið fyrir fyrsta leik á HM.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Stafangri

Landsliðskonurnar í handbolta fá ekki aðeins útrás fyrir keppnisskapinu innan vallar en þær Sunna og Þórey Rósa, sem eru einu tveir leikmennirnir í hópnum sem áður hafa spilað á stórmóti, ætla ekki að sætta sig við tap þegar keppni verður milli herbergja um flottustu jólaskreytingarnar í kvöld.

Leikmenn hafa verið að setja upp skemmtikvöld sem hafa verið mjög skemmtileg og reynst vel. Kjartan Vídó [markaðsstjóri HSÍ] er búinn að setja upp jólaskreytingakeppni. Við Þórey Rósa ætlum klárlega að sigra þá keppni, við erum byrjaðar að múta dómurum, sagði Sunna í samtali við Vísi í dag.

Þórey Rósa greindi þá frá því að þær ættu von á sendingu að heiman með skrauti til að tryggja það að sigurinn væri þeirra.

Spennandi verður að sjá hver ber sigur úr býtum í keppninni í kvöld en liðið nær í það minnsta aðeins að skemmta sér og losa um stress fyrir stóra deginum á morgun.

Ísland mætir Slóveníu klukkan fimm á morgun í fyrsta leik riðlakeppninnar. Leiknum verður gerð góð skil á Vísi og öllu sem tengist landsliðinu fram að fyrsta kasti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×