Körfubolti

Leikir Grinda­víkur í opinni dag­skrá og allar tekjur renna til Rauða krossins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Grindvíkingar ætla sér að fjölmenna í Smárann um helgina.
Grindvíkingar ætla sér að fjölmenna í Smárann um helgina. vísir/hulda margrét

Stöð 2 Sport blæs til körfuboltaveislu næstkomandi laugardag en þá verða tveir tvíhöfðar í beinni útsendingu.

Í Garðabænum mætast nágrannaliðin Stjarnan og Haukar. Leikur kvennaliðanna hefst klukkan 14.00 og karlarnir hefja leik klukkan 17.00. Báðir leikir verða sýndir á Stöð 2 Sport 5.

Grindvíkingar verða með sín lið á ferðinni í Smáranum í Kópavogi. Kvennalið Grindavíkur spilar við Þór frá Akureyri klukkan 14.00 og karlaliðið mætir Hamri klukkan 17.00. Þessir leikir verða báðir á Stöð 2 Sport.

Frítt er inn á leikina í Smáranum og þeir verða einnig í opinni dagskrá. Allar tekjur vegna auglýsingasölu á leikjunum munu renna óskertar til neyðarsöfnunar Rauða krossins vegna jarðhræringanna í Grindavík. Hægt er að leggja söfnuninni lið hér á heimasíðu Rauða krossins.

Grindvíkingar ætla sér að fjölmenna á leikinn í Kópavogi. Styðja sitt lið og hvert annað.

„Það væri ofboðslega fallegt, og held ég gott fyrir alla sem treysta sér og vilja, að taka næstkomandi laugardag frà, koma saman með okkur þar sem við ætlum að reyna að gleyma stund og stað. Losa um tilfinningar og spennu sem við erum öll búin að vera að glíma við á jákvæðan hátt með því að hvetja liðin okkar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×