Skoðun

GIS-dagurinn

Ólafía E. Svansdóttir skrifar

Í dag 15. nóvember er alþjóðlegi landupplýsingardagurinn. LÍSA, samtök um landupplýsingar var stofnuð 24. mars 1994, í kjölfar tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins á sviði kortagerðar og stafrænna landupplýsinga. Hlutverk samtakanna er að vera samstarfsvettvangur á sviði landfræðilegra gagnasafna og upplýsingakerfa. Aðilar í samtökunum eru opinberar stofnanir, einkafyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að vilja vinna að framþróun, gæðum og útbreiðslu landupplýsinga á Íslandi.

Hugtakið landupplýsingar vísar til gagna sem tengjast ákveðnum stað. Þessi gögn eru margvísleg s.s landfræðileg hnit, hæð, landþekja, landnotkun, íbúaþéttleiki, náttúrufar og fleira. Landfræðileg gögn eru notuð til að tákna og greina ýmsa þætti í náttúrlegu og manngerðu umhverfi jarðar.

Gott dæmi um mikilvægi landupplýsinga er vöktun og áhættumat fyrir jarðhræringar síðustu vikna á Reykjanesskaga. Veðurstofan, sem safnar sínum eigin gögnum með GPS mælingum og gervitunglamyndum, meðal annars, notast einnig við landupplýsingagögn frá öðrum stofnunum. Sem dæmi má nefna gögn frá Orkustofnun til að ákvarða staðsetningu borhola. Gögn um sjávardýpi frá sjókortum Landhelgisgæslunnar, örnefnagögn frá Landmælingum Íslands og staðsetningu gjáa og misgengis frá ÍSOR. Þetta eru allt landupplýsingar.

Eitt af helstu baráttumálum LÍSU hefur verið að aðgangur að gögnum sem hið opinbera safnar sé opinn öllum, aðgengilegur og gjaldfrjáls. Aðgengi að opnum landupplýsingagögnum ýtir undir nýsköpun bæði hjá hinu opinbera og einkaaðilum, bætir þjónustu og gagnsæi. Nú liggur fyrir frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um endurnot á opinberum upplýsingum sem við innan samtakanna bindum miklar vonir við.

Annað baráttumál LÍSU er að auka framboð á menntun og færni í faginu. Mikil vöntun er á menntuðu landupplýsingafólki á landinu og fylgir það sömu þróun og í Evrópu og víðast hvar annars staðar. Landupplýsingar eru hryggjarstykkið í öllum aðal- og deiliskipulögum, náttúruauðlindarannsóknum, almannavörnum, samgöngum og svo mætti lengi telja. Án faglega menntaðs landupplýsingafólks væri erfitt að starfrækja nútímaþjóðfélög.

Höfundur er framkvæmastjóri LÍSU, samtaka um landupplýsingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×