Handbolti

Góður sigur Gum­mers­bach í Ís­lendinga­slag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elliði Snær og félagar hans fagna sigri fyrr á tímabilinu.
Elliði Snær og félagar hans fagna sigri fyrr á tímabilinu. Vísir/Getty

Gummersbach vann góðan sigur á Melsungen í sannkölluðum Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Rhein-Neckar Löwen þurfti að sætta sig við tap gegn Kiel.

Alls voru fjórir Íslendingar í eldlínunni í leik Gummersbach og Melsungen. Bæði lið má kalla spútniklið hingað til í deildinni og meðal annars var Melsungen í toppsæti deildarinnar um tíma.

Gestirnir í Melsungen byrjuðu betur gegn lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar. Melsungen komst í 10-7 snemma í fyrri hálfleik sneru leiknum við og komust í 18-15 fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum var 20-18 Gummersbach í vil.

Í síðari hálfleik tóku heimamenn yfirhöndina. Þeir leiddu með tveimur til þremur mörkum og komust fimm mörkum yfir um miðjan hálfleikinn. Þeir sigldu sigrinum í höfn og unnu að lokum 37-31 sigur.

Elliði Snær Viðarsson átti góðan leik fyrir Gummersbach og skoraði 5 mörk en hann fór af velli með rautt spjald þegar átján mínútur voru eftir vegna þriggja brottvísana. Elvar Örn Jónsson var sömuleiðis öflugur í liði Melsungen og var markahæstur með 8 mörk. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað í liði Melsungen.

Ýmir Örn Gíslason og Arnór Snær Óskarsson voru í liði Rhein-Neckar Löwen sem mætti Kiel á heimavelli sínum. Kiel var sterkari aðilinn í leiknum og leiddi 14-9 að fyrri hálfleik loknum.

Rhein-Neckar náði mest að minnka muninn í 19-17 í síðari hálfleik en þá náði Kiel góðu áhlaupi og vann að lokum nokkuð öruggan sigur. Lokatölur 31-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×