Handbolti

„Frá­leitt að halda því fram“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Róbert Geir Gíslason
Róbert Geir Gíslason Vísir/Dúi

Framkvæmdastjóri HSÍ segir fráleitt að sambandið hafi hótað að reka kvennalið ÍBV úr Íslandsmótinu líkt og þjálfari liðsins sagði í fyrrakvöld. Erfitt sé að finna jafnvægi þegar fresta á leikjum.

ÍBV tapaði stórt fyrir Haukum í Olís-deild kvenna í fyrrakvöld þar sem margir lykilmenn voru hvíldir sökum þess að stutt var frá síðasta leik og tveir mikilvægir Evrópuleikir eru fram undan um helgina. Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, lét ósætti sitt við HSÍ bersýnilega í ljós í samtali við Vísi eftir leik.

„Ég ætla ekki að tjá mig mikið um ummælin sem slík. Fyrir okkur snýst þetta um tvö aðskilin mál. Fyrra málið er að leikurinn var settur á í gær. ÍBV vissulega bað um frestun á leiknum fyrir helgi og það fór fyrir mótanefnd sem hafnaði þeirri beiðni. ÍBV biður síðan um endurskoðun á þeirri ákvörðun sem mótanefnd fellst ekki á,“

„Seinna málið er síðan það sem gerist í fyrradag að ÍBV á bókað klukkan 9.30 í Herjólf sem fellur niður en það er önnur ferð í boði klukkan tólf. ÍBV fer ekki í þá ferð og ég veit svo sem ekki út af hverju,” segir Róbert. ÍBV hafi eftir frestun morgunferðarinnar sett sig í samband við HSÍ og athugað hvað væri best að gera.

Klippa: Fráleitt að halda því fram

„Svörin okkar eru bara sambærileg og alltaf – ef lið mætir ekki til leiks - fer það mál til mótanefndar,“ segir Róbert.

„Þetta er raunverulega mál sem er ekki hjá okkur á skrifstofunni. Ekki eitthvað sem við erum með á okkar borði,“ segir Róbert. Það hafi legið hjá mótanefndinni sem hefði þá tekið ákvörðun um hvort ÍBV gæfi leikinn með því að mæta ekki eða um frestun.

ÍBV fór í kjölfarið með báti Björgunarsveitarinnar frá Eyjum klukkan 13.00 og mætti í leikinn og lét því ekki reyna á hver niðurstaða mótanefndar yrði ef liðið léti ekki sjá sig að Ásvöllum.

Ekki til í myndinni að liði sé hótað brottrekstri

Í því samhengi sagði Sigurður eftir leikinn HSÍ hafa hótað því að vísa ÍBV hreinlega úr Íslandsmótinu ef það mætti ekki til leiks.

„Það er í raun og veru fráleitt. Það er ekki okkar, starfmanna HSÍ, að standa í hótunum við liðin sem við erum að þjónusta. Það er mótanefndar að taka ákvörðun í þessum málum og hún er skipuð af fulltrúum félaganna,“

„Þannig að það er fráleitt að halda því fram að einhver frá okkur hafi hótað að henda þeim úr keppni enda ekkert í reglunum sem segir til um það,“ segir Róbert Geir.

Álag fylgi góðum árangri

Sigurður, þjálfari ÍBV, snerti á mörgu í viðtali sínu eftir leik. Hann var afar ósáttur við það að leiknum hefði ekki fengist frestað, líkt og sótt var um í vikunni, og sagði HSÍ hreinlega leggja heilsu leikmanna í hættu með því að láta þá spila svo ört. Stjórn ÍBV tók undir þá gagnrýni í yfirlýsingu sem send var út í gærkvöld.

Róbert Geir segir að frestun á leiknum fram í janúar hefði líklega ekki leyst vandann þar sem einnig er leikið afar þétt þá.

„Það að taka þátt í Evrópukeppni fylgir vissulega álag og við höfum séð það bæði með Val í fyrra þar sem þeir tóku þátt í European League og spiluðu alltaf tvisvar í viku og við sjáum sama með landsliðin okkar á stórmótum þar sem er spilað annan hvern dag,“ segir Róbert.

„Við sjáum það líka hjá ÍBV í janúar þegar þær eiga fimm leiki og vonandi tvo Evrópuleiki. Þannig að það að fresta leiknum fram í janúar hefði skapað mikið vandamál þar. Álagið er þegar nógu mikið þar og sama má segja um febrúar. Þannig að það að fresta leiknum fram í janúar var ekki lausn að því gefnu að ÍBV fari áfram. Það myndi í raun skapa enn stærra vandamál heldur en núna,“

„Þetta verður mótanefnd alltaf að horfa til þegar hún tekur ákvarðanir um frestun á leikjum; það er ekki bara hvernig staðan er í dag heldur líka hvernig hún getur orðið líka eftir áramót. Við getum ekki raunverulega bara frestað vandamálinu sem slíku því að mótið þarf alltaf að klára á ákveðnum tímapunkti,“ segir Róbert Geir.

Fleira kemur fram í viðtalinu við Róbert Geir sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×