Handbolti

„Við verðum að nýta tímann vel“

Aron Guðmundsson skrifar
Íslenski atvinnu- og landsliðsmaðurinn í handbolta, Ómar Ingi Magnússon
Íslenski atvinnu- og landsliðsmaðurinn í handbolta, Ómar Ingi Magnússon Vísir/Einar

Íslenski atvinnumaðurinn í handbolta, Ómar Ingi Magnús­son, er kominn aftur á fullt skrið í boltanum eftir smá meiðsla­tíma­bil og nálgast nú hrað­byri topp­form. Hann verður í eld­línunni með ís­lenska lands­liðinu í kvöld þegar að liðið leikur sinn fyrsta leik undir stjórn nýs lands­liðs­þjálfara, Snorra Steins Guð­jóns­sonar gegn Fær­eyjum.

Að­spurður hvort greina mætti ein­hverjar á­herslu­breytingar hjá lands­liðinu með til­komu Snorra Steins þessa fyrstu daga sem liðið hefur æft saman undir hans stjórn hafði Ómar Ingi þetta að segja:

„Það eiga sér náttúru­lega alltaf stað ein­hverjar á­herslu­breytingar þegar að þjálfara­breytingar verða hjá liðum. Ís­lenska lands­liðið er ekki undan­skilið því. Okkar leikur verður hins vegar ekkert eitt­hvað svart og hvítt miðað við áður. Við viljum bara gera betur á öllum sviðum. Ég tel okkur geta náð því.“

Honum lýst vel á nýja þjálfarann.

„Mjög vel. Ég er mjög já­kvæður fyrir þessu og hlakka til að spila leikina um helgina sem og að fara á Evrópu­mótið í janúar. Þetta verður mjög spennandi.“

Eins og fyrr sagði er Ómar Ingi byrjaður að spila aftur reglu­lega eftir að hafa glímt við meiðsli. Hann er orðinn góður af meiðslunum og vinnur nú í því að komast aftur í sitt besta form.

„Ég er bara orðinn góður og líður vel. Formið er svona að koma til baka hægt og ró­lega. Verður betra með hverjum deginum sem líður. Því meira sem ég spila því betra verður það. Vonandi verð ég bara kominn í mitt besta form í janúar.“

Ís­lenska lands­liðið á ekki marga daga saman fram að Evrópu­mótinu í Þýska­landi og því er hver dagur sem liðið er saman gríðar­lega mikil­vægur.

„Það er alltaf lítill tími sem maður hefur í undir­búning þegar kemur að lands­liðinu. Núna fáum við fjórar æfingar saman þar sem við höfum þurft að fara yfir á­kveðin at­riði. Við höfum gert það vel. Það er alltaf sama klisjan í kringum lands­liðs­verk­efnin, við verðum að nýta tímann vel. Þessir æfingar­leikir sem við eigum fram að EM eru mikil­vægir. Við verðum að nýta þetta vel, gera þetta vel.“

Hvað vill hann sjá frá ís­lenska liðinu í leiknum gegn Fær­eyjum í kvöld?

„Við þurfum góða spila­mennsku í öllu þáttum okkar leiks. Vörn, hraða­upp­hlaupum, sókn og mark­vörslu. Við þurfum allir að vera á sömu blað­síðunni, spila saman sem lið og halda uppi góðri orku. Með því kemur góð frammi­staða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×