Viðskipti innlent

Ráðinn úr hópi 29 til að passa upp á fjármál Ríkisútvarpsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Þór hefur starfað á skrifstofu opinberra fjármála hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2011.
Björn Þór hefur starfað á skrifstofu opinberra fjármála hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2011. RÚV

Björn Þór Hermannsson hefur verið ráðinn í starf fjármálastjóra Ríkisútvarpsins. Starfið var auglýst í september og alls sóttu 29 um starfið. Intellecta annaðist ráðningarferlið sem var bæði vandað og ítarlegt að því er segir í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Björn Þór Hermannsson er með B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í fjármálahagfræði frá sama skóla. Hann hefur starfað á skrifstofu opinberra fjármála hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2011. Hann var skipaður staðgengill skrifstofustjóra árið 2014 og skipaður skrifstofustjóri árið 2016 og hefur hann gegnt því starfi síðastliðinn sjö ár. 

Í vinnu sinni hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur hann öðlast yfirgripsmikla þekkingu á fjármálum ríkisins og hins opinbera og verið leiðandi í vinnu við áætlanagerð og stefnumótun í opinberum fjármálum og samhæfingu ríkisfjármála og fjármála sveitarfélaga. Í þeirri vinnu felst meðal annars að stýra undirbúningi og gerð fjármálastefnu, fjármálaáætlunar, fjárlaga og fjáraukalaga, bæði innan ráðuneytisins og gagnvart öðrum ráðuneytum, auk þess að bera ábyrgð á útgjaldaáætlun ríkisins. 

„Björn Þór hefur í störfum sínum sinnt margvíslegum greiningum og komið að gerð og þróun ýmissa reiknilíkana. Hann hefur sinnt kynningum á stöðu ríkisfjármála og opinberra fjármála bæði innan stjórnsýslunnar en einnig gagnvart erlendum aðilum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Þá tók hann virkan þátt í undirbúningi lagasetningar um opinber fjármál sem tóku gildi árið 2016 og síðar innleiðingu laganna, sem fólu í sér veigamiklar breytingar á áætlanagerð og stefnumörkun ríkisfjármála og opinberra fjármála frá því sem verið hafði,“ segir í tilkynningu.

Fjármálastjóri Ríkisútvarpsins ber ábyrgð á stefnumótun, umsjón og daglegri fjármálastjórnun RÚV, annast fjárhags- og rekstraráætlanagerð og eftirfylgni áætlana, ber ábyrgð á rekstrarlegri greiningu og miðlun fjárhagsupplýsinga, hefur yfirumsjón með bókhaldi og uppgjöri og fleiru. Leitað var að stjórnanda með þekkingu og reynslu af fjármálastjórnun, áætlanagerð og uppgjöri, greiningarvinnu og framsetningu fjármálaupplýsinga. 

„Í ráðningarferlinu var staðfest að Björn Þór uppfyllir vel þessar kröfur sem og aðrar kröfur sem gerðar eru til starfsins.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×