Innlent

Sí­fellt fleiri börn sem þurfa stuðning í grunn­skólum

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Arnar Haraldsson ráðgjafi hélt erindi á málþingi um skólamál.
Arnar Haraldsson ráðgjafi hélt erindi á málþingi um skólamál. Vísir/Arnar

Kostnaður vegna stuðningsþjónustu við börn í grunnskólum hefur vaxið mun meira en kostnaður við að fjölga kennurum samkvæmt niðurstöðum nýrrar úttektar á þróun reksturs grunnskóla frá 1996 til 2022. Ráðgjafi segir gríðarlega aukningu í fjölgun stöðugilda vegna stuðningsfulltrúa.

Í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá yfirfærslu rekstrar grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga árið 2021 var ákveðið að ráðast í úttekt á þróun skólastarfsins og þjónustu við börn. Niðurstöður þeirrar úttektar liggja nú fyrir og eru kynntar á málþinginu „Reynslunni ríkari“ í dag. 

Mikil aukning stuðningsþjónustu

Arnar Haraldsson, ráðgjafi og sá sem hélt utan um úttektina, segir helstu niðurstöður hennar vera gríðarlega aukningu í stuðningsþjónustu.

„Stöðugildum í grunnskólum hefur fjölgað um sjötíu prósent frá árunum 1998 til 2022 en á sama tíma hefur nemendum fjölgað um ellefu prósent. Þannig það er mikilvægt að svara því í hverju þróunin liggur.,“ segir Arnar og bætir við að vísbendingar séu um að þróunin sé tilkomin vegna fjölgunar á stöðugildum vegna stuðnings í grunnskólum. 

Fleiri börn sem þurfa stuðning

„Börnum í grunnskólum sem þurfa stuðning hefur fjölgað töluvert en við þurfum kannski að vinna aðeins meira í því að hafa skoðun á því hvernig þessi þróun er að eiga sér stað. Ekki bara að hún sé að verða til einhvern veginn,“ segir Arnar. Nauðsynlegt sé að velta því upp hvernig verið sé að halda á þeim ákvörðunum. 

Í úttektinni kemur jafnframt að Ísland reki eitt dýrasta grunnskólakerfið en lítið af því skili sér til kennara. „Við erum með eitt kostnaðarsamasta grunnskólakerfið meðal OECD ríkjanna en við erum til dæmis hvað kjarasetningu kennara varðar, þá er launabilið milli þeirra sem eru með hæstu og lægstu launin mjög lítið í samanburði við önnur OECD ríki,“ segir Arnar. Launabil bili þeirra með minnstu reynsluna og mestu sé í raun ekki neitt.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×