Viðskipti erlent

Vilj­a setj­a al­þjóð­leg­an auð­legð­ar­skatt á auð­jöfr­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Auðjöfrar víða um heim greiða lítinn sem engan skatt og komast hjá því með notkun skúffuélaga.
Auðjöfrar víða um heim greiða lítinn sem engan skatt og komast hjá því með notkun skúffuélaga. Getty

Alþjóðlegur auðlegðarskattur á auðjöfra er meðal tillaga sem gætu dregið verulega úr undanskotum á heimsvísu og skilað um 250 milljörðum dala í ríkissjóði heimsins á hverju ári. Í nýrri skýrslu frá Skattastofnun Evrópusambandsins segir að auðjöfrar beiti skúffufélögum til að borga nánast enga skatta.

250 milljarðar dala samsvara tæpum 35 billjónum króna (34.775.000.000.000).

Í skýrslunni, sem finna má hér, leggja sérfræðingar stofnunarinnar (EU Tax Observatory) til að lagður verði minnst tveggja prósenta auðlegðarskattur á þá um 2.700 menn sem eiga meira en einn milljarð dala á heimsvísu. Þessi hópur er talinn eiga um þrettán billjónir dala, eða um 1,8 billjarða króna.

Að svo stöddu greiði auðjöfrar mun minna en hefðbundnir skattgreiðendur eða frá núll til hálfs prósents af auð þeirra. Þetta geta þeir með notkun skúffufélaga engin tilraun hefur verið gerð, hingað til, til að reyna að koma í veg fyrir þessi undanskot auðjöfra.

Í skýrslunni segir að undanskot undan sköttum sé ekki náttúrulögmál, heldur sé það á ábyrgð yfirvalda að leyfa slíkt.

Þörf á pólitískum vilja

EUTO segir að dregið hafi úr því að auðjöfrar feli auðæfi sín í skattaparadísum á undanförnum áratug og að sá árangur byggi á því að yfirvöld í skattapardísum hafi verið beðin um að deila bankaupplýsingum með öðrum. Það sé þó hægt að gera betur og draga úr undanskotum, sé pólitískur vilji fyrir hendi.

Í samtali við blaðamenn í gær sagði Gabriel Zucman, yfirmaður EUTO, að erfitt væri að réttlæta lága skattbyrði auðjöfra og hún græfi undan skattkerfum og samfélagslegri samþykkt á skattgreiðslu yfir höfuð, samkvæmt frétt Reuters.

Sífellt meiri misskipting auðs hefur samkvæmt Reuters leitt til ákalla víða um heim um að skattbyrði auðugs fólks verði aukin. Þörf sé á því vegna hækkandi meðalaldurs víða um heim, fjárhagslegra burða vegna veðurfarsbreytinga og vegna uppsafnaðra skulda vegna Covid.

Segir ósanngjarna skattbyrði ógna lýðræðinu

Joseph Stiglitz, bandarískur hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi, skrifar inngang skýrslunnar en þar segir hann að ósanngjörn skattbyrði ógni lýðræðinu. Almenningur sjái auðjöfra og fyrirtæki komast undan því að taka þátt í að halda samfélaginu gangandi og það leiði til reiði. Þá auki núverandi fyrirkomulag á ójöfnuð og veiki traust á opinberar stofnanir.

Þá segir Stiglitz að hnattvæðing hafi aukið getu auðjöfra heimsins til að komast hjá skattgreiðslu og þetta hafi of lengi verið samþykkt sem óhjákvæmileg fylgni hnattvæðingar. Það sé þó hægt að taka á vandanum.

EUTO leggur fram sex tillögur að aðgerðum sem hannaðar eru til að taka á áðurnefndum vandamálum.

Fyrsta tillagan snýr að því að setja á 25 prósenta fyrirtækjaskatt á heimsvísu og loka undankomuleiðum. Önnur tillaga snýr að tveggja prósenta auðlegðarskatt á ríkasta fólk heimsins, eins og áður hefur komið fram.

Einnig er lagt til að hnattræn eignaskrá verði mynduð, sem hægt yrði að nota til að berjast betur gegn undanskotum frá skatti og að þróaðar verði leiðir til sanngjarnar skattlagningar á ríkt fólk sem hafa búið lengi í einu ríki en flytja í annað, þar sem skattar eru lægri, svo eitthvað sé nefnt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×