Körfubolti

Er stjarna fædd í Grindavík?

Siggeir Ævarsson skrifar
Hinn 17 ára Arnór Tristan Helgason stimplaði sig rækilega inn í deildina gegn Íslandsmeisturum Tindastóls
Hinn 17 ára Arnór Tristan Helgason stimplaði sig rækilega inn í deildina gegn Íslandsmeisturum Tindastóls Vísir/Anton Brink

Hinn 17 ára Arnór Tristan Helgason, leikmaður Grindavíkur, heillaði sérfræðinga körfuboltakvölds upp úr skónum með frammistöðu sinni gegn Íslandsmeisturum Tindastóls á föstudaginn. „Hann kom með rosalega góða orku í leikinn,“ - sagði Helgi Magnússon.

Arnór skoraði ellefu stig í leiknum, setti tvo þrista en tróð boltanum líka tvisvar og með miklum tilþrifum í bæði skiptin. Troðslurnar glöddu vissulega augað fyrir áhorfendur en Helgi sá meira í leik Arnórs en troðslur.

„Það er ekkert mál að sýna troðslurnar og einhvern opinn þrist sem hann setur. En hann kom með rosalega góðu orku í leikinn. Hann var að pönkast í vörninni, fékk ósanngjarna villu á tímabili þar sem hann var að reyna að blokka Tóta. Hann er að djöflast í fráköstum, kemur höndum á bolta. Hann kom með þá orku sem er lang mikilvægust að mínu mati fyrir unga leikmenn.“

Teitur Örlygsson tók í svipaðan streng:

„Hann hleypur inn í öll fráköst ef hann sé ekki kominn til baka. Það er svo mikil orka í honum og það er svona samasemmerki um unga leikmenn sem eitthvað verður úr í framtíðinni.“

Klippa: Arnór Tristan Helgason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×