Handbolti

Erfiður endasprettur hjá Melsungen í toppslagnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elvar Örn í baráttunni gegn Berlín.
Elvar Örn í baráttunni gegn Berlín.

Íslendingaliðið Melsungen mátti þola sex marka tap í toppslag þýsku úrvalsdeildarinnar gegn Füchse Berlin. Aðeins eitt mark skildi liðin að þegar sjö mínútur voru eftir en 37-31 varð lokaniðurstaðan. 

Melsungen mistókst að nýta sér tækifæri til að jafna Füchse Berlin að stigum í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Melsungen hafði aðeins tapað einum af fyrstu níu leikjum sínum á tímabilinu, en það var nokkuð óvænt tap í þarsíðustu umferð gegn BHC sem situr í 14. sæti deildarinnar. Füchse Berlin er enn ósigrað eftir tíu leiki. 

Melsungen braut ísinn og tók forystuna í upphafi, en leikurinn var hnífjafn og aldrei komust þeir meira en tveimur mörkum yfir. Heimamenn jöfnuðu loks leikinn þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og komust yfir áður en hann kláraðist. 

Þeir byrjuðu svo seinni hálfleikinn af krafti og voru fljótt komnir fimm mörkum yfir en Melsungen voru hvergi að baki brotnir. Unnu sig jafnt og þétt til baka inn í leikinn og minnkuðu muninn í eitt stig þegar sjö mínútur voru eftir. 

En þá tók við stórskotahríð hjá heimamönnum í Füchse Berlin, þeir skoruðu fimm mörk í röð og hleyptu engu skoti gestanna inn fyrr en á lokasekúndum leiksins og að endingu varð það sex marka sigur. 

Í liði Melsungan skoraði Arnar Freyr Arnarsson eitt mark en Elvar Örn Jónsson gerði fimm mörk og gaf eina stoðsendingu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×