Körfubolti

„Hún er með sjálfs­traust á við mið­aldra hvítan karl­mann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísold Sævarsdóttir er mjög efnilega körfubolta og hefur byrjað feril sinn vel í efstu deild.
Ísold Sævarsdóttir er mjög efnilega körfubolta og hefur byrjað feril sinn vel í efstu deild. Vísir/Hulda Margrét

Ungu efnilegu körfuboltastelpurnar úr Garðabænum eru farnar að láta til sín taka í Subway deild kvenna í körfubolta og þær fögnuðu sínum fyrsta sigri um síðustu helgi. Körfuboltakvöld kvenna fór yfir liðið og ræddi þá sérstaklega kornunga tvo leikmenn liðsins.

„Það eru tvær stelpur í þessu Stjörnuliði sem ég myndi segja að væru algjörir elítutalentar á sínum aldri,“ sagði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds, en áður hafði komið fram að hin fimmtán ára gamla Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði 31 stig í sigri á Fjölni.

„Hin er Ísold Sævarsdóttir. Haddý, hvað finnst þér um hana sem leikmann,“ spurði Hörður en sextán ára gamla Ísold var með sautján stig í sigrinum á Fjölni.

„Mér finnst hún algjör töffari. Hún er ekki hrædd við neitt. Hún er ógeðslega fljót og brýtur upp hvaða vörn sem er,“ sagði Hallveig Jónsdóttir, sérfræðingur Körfuboltakvölds, og var mjög ánægð með boltaflæðið í kringum þennan unga leikstjórnanda.

„Hún er einhvern vegin töffaraleg og grjóthörð. Ég er mjög hrifin af henni,“ sagði Hallveig og Ólöf Helga Pálsdóttir tók undir það.

„Hún er nefnilega grjóthörð. Hún er með sjálfstraust á við miðaldra hvítan karlmann,“ sagði Ólöf Helga létt.

„Ég hef talað við hana sem þjálfarinn hennar og hún veit hvað hún er góð. Vel gert hjá þér: Ég veit það,“ sagði Ólöf.

„Ég elska þetta því þetta er svo sjaldséð hjá stelpum á þessum aldri,“ sagði Ólöf.

„Hún er líka að stjórna liðinu frá A til Ö. Lætur fólk heyra það og gerir það mjög vel,“ sagði Hallveig.

Það má horfa á alla umfjöllunina um Ísold Sævarsdóttur og ungu stelpurnar í Stjörnunni hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld kvenna: Ungar Stjörnukonur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×