Skoðun

Góð sam­vinna og sam­tal er upp­skrift árangurs

Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Ég býð mig fram til formanns ÖBÍ réttindasamtaka á aðalfundi samtakanna núna í október.

Þriðja áherslumál mitt er góð samvinna og samtal.

Undanfarin ár höfum við hjá ÖBÍ lyft grettistaki, sýnt hve öflug við erum og hvað við getum. Þar leika málefnahópar ÖBÍ stórt hlutverk með tengingu sinni í aðildarfélögin. Þeirri vinnu er mikilvægt að halda áfram sem og að virkja og valdefla unga fólkið okkar.

Við höfum of lengi mætt fordómum og skilningsleysi og það er mín staðfasta trú að við náum mestum árangri með samtali og samvinnu við stjórnvöld og stofnanir þeirra, sem og samfélagið allt. Slík samvinna er uppskrift árangurs og vil ég bjóða fram krafta mína til að leiða þá vinnu áfram..

Í starfi mínu sem lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum og réttindum fatlaðs fólks hefur mér verið treyst til að vinna með stjórnvöldum að mörgum mikilvægum réttindamálum fatlaðs fólks. Þar er að mínu mati afar mikilvæg sú vinna sem ég hef tekið þátt í sem fulltrúi ÖBÍ í verkefnastjórn Landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er þar leiðarljósið.

Ég brenn fyrir þessu starfi og hef fundið fyrir öflugri hvatningu félaga okkar og trausti til að leiða þá baráttu áfram. Þess vegna gef ég kost á mér sem formaður ÖBÍ réttindafélags.

Fimm áherslumál mín í formannskjöri ÖBÍ

  • Íslenskt stjórnvöld þurfa að grípa fyrr inn í hjá fötluðum börnum. Burt með biðlista og tryggjum að enginn dragist aftur úr.
  • Hvergi verði gefið eftir í þeirri kröfu að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna
  • um réttindi fatlaðs fólks.
  • Besti árangur næst með góðri samvinnu og samtali við stjórnvöld, stofnanir og samfélagið. Við stöndum á staðreyndum og stefnumálum – en ekki í stríði. ÖBÍ þarf að starfa vel með sínum aðildarfélögum og hlusta á þeirra sjónarmið.
  •  Inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkað er lykilatriði – með atvinnulífi og verkalýðshreyfingunni vinnum við gegn fordómum og með aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Í okkur felast tækifæri og ávinningur.
  • Framfærsla er grundvöllur lífs. Við getum ekki sætt okkur við sem samfélag, aukna fátækt og stéttaskiptingu sem hefur áhrif á öll.

Höfundur er lögfræðingur og í kjöri til formanns ÖBÍ réttindasamtaka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×