Handbolti

Arnar Birkir skoraði fjögur í sigri og Þorgils og félagar sóttu sín fyrstu stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Birkir í landsleik með B-landsliði Íslands.
Arnar Birkir í landsleik með B-landsliði Íslands. vísir/vilhelm

Arnar Birkir Hálfdánsson og félagar hans í Amo eru enn með fullt hús stiga í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta eftir öruggan sex marka sigur gegn Aranas í kvöld, 33-27. Á sama tíma sóttu Þorgils Jón Svölu Baldursson og félagar í Karlskrona sín fyrstu stig á tímabilinu.

Arnar og félagar í Amo hafa farið vel af stað á tímabilinu og liðið hafði unnið fyrstu tvo leikina sína, gegn Karlskrona og Onnereds. Sigurgangan hélt áfram í kvöld er liðið tók á móti Aranas þar sem heimamenn í Amo leiddu með átta mörkum í hálfleik, 19-11.

Þrátt fyrir að hafa náð að minnka muninn niður í tvö mörk í síðari hálfleik var sigur Amo í raun aldrei í hættu og liðið vann að lokum góðan sex marka sigur, 33-27. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk fyrir Amo sem trónir á toppi sænsku deildarinnar með sex stig eftir þrjá leiki, en Aranas situr hins vegar á botninum án stiga.

Þá var Þorgils Jón Svölu Baldursson í liði Karlskrona sem vann fimm marka sigur gegn Hallby, 30-25. Þorgils komst ekki á blað fyrir Karlskrona, en liðið sótti þar með sín fyrstu stig á tímabilinu og situr nú í 12. sæti með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×