Skoðun

Ríkisstjórnin svínaði á eftirlaunafólki fimm ár í röð

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Í 62. gr. almannatryggingalaga stendur skýrum stöfum að greiðslur almannatrygginga skuli „taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Hvernig hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur umgengist þessi lög?

Örorkulífeyrir hefur dregist rækilega aftur úr launaþróun síðan 2017.

Ellilífeyrir hækkaði minna en launavísitala árin 2018, 2019 og 2020 og meira að segja minna en verðlag árin 2021 og 2022.

Þannig hefur ekki einu sinni lágmarkskrafa 62. gr. um að greiðslur „hækki aldrei minna en verðlag“ verið uppfyllt.

Ég spurði félags- og vinnumarkaðsráðherra um þessa þróun á Alþingi:

„Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafin yfir lög og reglur í landinu? Er það stefna ríkisstjórnarinnar að ellilífeyrir hækki minna en laun, og jafnvel minna en verðlag? Og ef það er ekki stefnan, hvers vegna er það þá látið viðgangast?“

Svör ráðherra voru sláandi.

Hann sagðist einfaldlega „horfa til þess að passa að þetta fylgi verðlagi“, „að ekki verði um verðrýrnun að ræða“ – en útskýrði ekki hvers vegna ellilífeyrir hækkaði þá minna en verðlag árin 2021 og 2022 og skautaði algerlega fram hjá því að lögin gera líka kröfu um að greiðslur almannatrygginga taki mið af launaþróun.

Fjármála- og efnahagsráðherra talaði með sama hætti á Alþingi í fyrra þegar hann furðaði sig á því að rætt væri um greiðslur almannatrygginga í samhengi við launahækkanir á vinnumarkaði en ekki aðeins verðlagsþróun.

Það virðist með öðrum orðum vera einbeittur ásetningur ríkisstjórnarinnar að hunsa fyrirmæli 62. gr. almannatryggingalaga.

Til að bíta höfuðið af skömminni hefur almennu frítekjumarki eftirlaunafólks, sem tekur til lífeyrissjóðstekna, verið ríghaldið í 25 þúsund kr. á mánuði frá 2017, og allar tekjur umfram það koma til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar.

Svona viljum við ekki hafa almannatryggingakerfið okkar og svona mega ráðherrar ekki umgangast það.

Almannatryggingakerfið byggir á félagslegum réttindum og við eigum að geta verið stolt af því. Stolt af því að búa í velferðarþjóðfélagi þar sem borin er virðing fyrir fólki og framlagi þess til samfélagsins.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×