Viðskipti innlent

Guð­mundur hættir aftur hjá Bónus

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus. Vísir/Sigurjón

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, hefur óskað eftir því að láta af störfum hjá félaginu frá og með áramótum. Hann hefur gegnt starfinu síðan árið 1998, 25 ár. Björgvin Víkingsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og innkaupastjóri Bónus hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra og tekur við um áramótin.

Þetta kemur fram í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar. Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, að Guðmundar verði saknað. 

„Það hefur verið bæði lærdómsríkt og ánægjulegt að fá að starfa með Guðmundi undanfarin ár, en velgengni Bónus hefur ekki síst byggt á staðfestu hans við að tryggja íslenskum heimilum ávallt hagkvæmustu matvörukörfu landsins, sem hefur verið markmið félagsins frá stofnun. Guðmundur skilur við Bónus sem leiðandi fyrirtæki í verslun á Íslandi, þar sem hagkvæmni í rekstri og hagur neytenda eru ávallt sett í fyrsta sætið,“ segir Finnur.

Guðmundur segist stoltur af því að hafa staðið vörð um þau gildi sem honum var trúað fyrir þegar hann tók við félaginu. 

„Ég hef verið svo heppinn að fá að vinna með frábæru starfsfólki og yfirmönnum, sem ég þakka mjög gott samstarf í gegnum tíðina. Að sama skapi er ég þakklátur fyrir samstarf við okkar öflugu birgja og aðra samstarfsaðila sem eiga hlut í velgengni Bónus. Síðast en ekki síst vil ég þakka Ingu Brynju konunni minni fyrir að hafa gert mér kleift að sinna þessari krefjandi vinnu í þennan langa tíma,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur hefur áður hætt hjá Bónus, það gerði hann árið 2020. Rúmum tveimur mánuðum eftir að hann tilkynnti um uppsögn sína þá hætti hann þó við. 

Björgvin Víkingsson sem tekur við af Guðmundi hefur starfað hjá Bónus síðan í vor. Fram af því var hann forstjóri Ríkiskaupa í þrjú ár. 


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×