Viðskipti innlent

Draumagiggið fyrir að­fanga­keðju­nördið

Atli Ísleifsson skrifar
Björgvin Víkingsson sagði upp störfum sem forstjóri Ríkiskaupa í lok febrúarmánaðar.
Björgvin Víkingsson sagði upp störfum sem forstjóri Ríkiskaupa í lok febrúarmánaðar. Vísir/Vilhelm/Stjr

„Þetta tækifæri bauðst. Þetta samtal byrjaði fyrir einhverjum mánuðum síðan og var í raun algert draumagigg að hoppa inn í. Ég er aðfangakeðju- og innkaupanörd út í eitt og það er mjög spennandi að komast inn í stærsta smásölufyrirtæki landsins. Það kitlaði hrikalega.“

Þetta segir Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa, sem mun taka við stöðu innkaupastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra Bónuss í vor. Björgvin hefur starfað sem forstjóri Ríkiskaupa frá 2020.

Í samtali við Vísi segist hann vera mikill áhugamaður um stefnumótun. „Þetta er starf sem býður upp á að skoða og pæla í hvernig stór leikmaður getur og á að vera. Ég er mjög spenntur að fara í það með Guðmundi,“ segir Björgvin og vísar þar í Guðmund Marteinsson, framkvæmdastjóra Bónuss.

Björgvin segir það hafa verið gríðarlega skemmtilegt að leiða starfið hjá Ríkiskaupum síðustu árin. Mikið sé búið að gerast og að margt eigi eftir að gera. „Ég var ekkert á leiðinni að hætta því, en svo kemur skemmtilegt símtal og samtal og þá fer maður bara að spá og spekúlera. Ég endaði þarna megin við línuna. Ég er hrikalega spenntur fyrir þessu.“

Hann segir Bónus vera risastórt vörumerki og stærsta smásalann á markaðnum. „Manni þykir vænt um vörumerkið áður en maður byrjar að vinna þarna. Maður vill að Bónus sé í fararbroddi og það eru líka allir að sækja í sig veðrið á þessum markaði. Bónus spilar þetta rosa, trausta lykilhlutverki í árferði sem er núna. Fólk á kannski minna á milli handanna og þá er svakalega mikilvægt að hafa Bónus að berjast fyrir því að lækka vöruverð á markaðnum. Það er það sem Bónus stendur fyrir.“

Þarf að ganga frá ákveðnum verkefnum

Sem innkaupastjóri verður það á borði Björgvins að ná sem hagstæðustum samningum við hina ýmsu aðila til að hafa vöruverðið sem lægst.

Hann segist hafa sagt upp hjá Ríkiskaupum fyrir nýliðin mánaðamót og muni því starfa þar eitthvað áfram. „Ég mun ganga frá ákveðnum verkefnum og mínum málum. Ég byrja svo á nýjum stað í maí.“

Í tilkynningunni frá Bónus, sem send var á fjölmiðla í morgun, segir að Björgvin sé með meistaragráðu í aðfangakeðjustjórnun frá ETH háskólanum í Zurich og B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Þá kom fram að hann hafi víðtæka reynslu af innkaupum og vörustjórnun hjá alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Maersk, Aasted Aps, DT Group og Marel hf.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×