Körfubolti

Banda­ríkin heim af HM án verð­launa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fögnuður Kanadamanna í leikslok var ósvikinn.
Fögnuður Kanadamanna í leikslok var ósvikinn. Vísir/Getty

Kanada lagði nágranna sína frá Bandaríkjunum í leik liðanna um bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu í körfubolta. Annað mótið í röð fara Bandaríkjamenn heim án verðlauna.

Bandaríkin er sú þjóð sem unnið hefur til flestra verðlauna á heimsmeistaramóti í körfubolta. Liðið hefur fimm sinnum orðið heimsmeistari, jafn oft og gamla Júgóslavía og unnið til tólf verðlauna alls á mótinu.

Liðið fer hins vegar tómhent heim af mótinu í ár. Liðið tapaði í morgun fyrir nágrönnum sínum frá Kanada í leik um bronsverðlaunin.

Dillon Brooks og Shai Gilgeous-Alexander fóru fyrir frábæru kanadísku liði í 127-118 sigri eftir framlengdan leik. Brooks skoraði 39 stig og Gilgeous-Alexander 31 en samtals skiluðu þeir 82 framlagsstigum fyrir kanadíska liðið í leiknum.

Lið Bandaríkjanna kom til baka í fjórða leikhlutanum eftir að hafa verið níu stigum undir og Mikal Bridges jafnaði með ótrúlegu skoti til að tryggja Bandaríkjunum framlengingu.

Í framlengingunni voru Kanadamenn sterkari og unnu að lokum sín fyrstu verðlaun á heimsmeistaramóti. NBA-stjörnurnar Anthony Edwards, Jalen Brunson og Austrin Reaves voru ekki nóg til að sækja gullið fyrir Bandaríkin sem tapaði gegn Þýskalandi í undanúrslitum. 

„Það er búist við að við vinnum býst ég við, á hverju ári. Það er búist við að við vinnum vegna sögu bandarísks körfubolta,“ sagði Brunson eftir tapið í undanúrslitum og ljóst er að 4. sætið er svekkelsi fyrir Steve Kerr og lærisveina hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×