Skoðun

Kópa­vogur setur hags­muni leik­skóla­barna í fyrsta sæti

Hrund Traustadóttir skrifar

Umræða um leikskólamál í Kópavogi hefur verið hávær undanfarnar vikur. Sumt fólk steytir rafrænum hnefum og segir Kópavogsbæ ráðast að veikasta hlekknum fátæka fólkinu. Aðrir tala um jafnrétti og afturför þar um, meðan aðrir fagna þessum aðgerðum þar sem þau telja leikskólagjöld hafa verið of lág til að hægt sé að halda uppi faglegu skólastarfi. Kópavogsbær hefur einfaldlega farið í greiningarvinnu á málinu og það er ekki farið í þessar breytingar nema að vel athuguðu máli frá öllum hliðum. Haft var víðtækt samráð við starfsfólk og stjórnendur leikskóla bæjarins, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda í leikskólum, Starfsmannafélag Kópavogs, foreldra, og aðra hagaðila. Samráðið leiddi í ljós skýrt ákall um bættar starfsaðstæður í leikskólum. Leikskólastarfsfólk er að niðurlotum komið og hverfur í umvörpum í veikindaleyfi sökum álags og það er svo löngu tímabært að gripið sé til aðgerða. Þarna er Kópavogsbær einfaldlega að gera einmitt það og svarar ákallinu. Börn á leikskólaaldri eiga ekki að þurfa að vera í 8-9 tíma á dag í öllu áreitinu sem er að buga fullorðna fólkið.Ég tek það fram að ég er ekki að skrifa þessa grein út frá pólitísku sjónarhorni, heldur út frá faglegri reynslu og þekkingu minni. Mér persónulega gæti ekki verið meira sama hvaða stjórnmálaflokkur stendur fyrir því að þetta hugaða skref sé tekið en tilfinningin er sannarlega góð að loksins, loksins séu tekin skref sem eiga að bæta vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla og þá ekki síður barna í leikskólum en bættar starfsaðstæður koma til með að skila sér lóðbeint í betri líðan þeirra í skólaumhverfinu.

Samkvæmt þessum breytingum fær sambúðarfólk með mánaðartekjur undir 980.000 kr 40% afslátt og eru þá að borga 33.869 kr á mánuði (áður 38.126 kr) sem er raunveruleg lækkun fyrir þann hóp. Nú er ég að tala um 8 klst á dag, verðið er að sjálfsögðu breytilegt eftir tímafjölda. Einstæðir foreldrar með tekjur undir 750.000 fá sama afslátt. Það má kannski taka það fram að eitt leikskólapláss kostar sveitarfélagið um 350.000 kr á mánuði eða 4.200.000 á ári. Það má líka hafa í huga að ef leikskólagjöld hefðu fylgt vísitölu og verðbólgu væri plássið á ca 95.000 kr á mánuði í dag.

Heimili sambúðarfólks sem eru með yfir 980.000 kr í mánaðartekjur falla ekki undir viðmiðunarmörk fyrir afslátt af leikskólagjöldum samkvæmt þessum breytingum. Sama á við um einstæða foreldra með mánaðartekjur yfir 750.000 kr. Þau heimili eru þá að borga leikskólagjöld miðað við 8 klst á dag, 49.474 kr á mánuði. Systkinaafsláttur er 30%, 100% með þriðja barni. Einstæðir foreldrar halda sínum 30% afslætti til áramóta. Til samanburðar eru foreldrar í Kópavogi að borga a.m.k. 50.000 kr á mánuði hjá dagforeldrum eftir að Kópavogsbær hefur greitt niður 107.000 krónur af því gjaldi. Flest leikskólabörn hafa verið hjá dagforeldrum áður en þau hefja leikskólanám, þrátt fyrir allar fátæktargildrur sem hækkuð leikskólagjöldin eiga nú að vera að kalla yfir fólk samkvæmt gagnrýnisröddum.

Ég sem leikskólakennari lít aðeins bjartari augum fram á við þegar ég sé að raunveruleg skref eru tekin til að bæta starfsaðstæður kennara og nemenda. Það er verið að hlusta á raddir fagfólks og sérfræðinga en rannsóknir sýna fram á neikvæða þróun og þegar fram í sækir er hætt við að viðeigum eftir að að glíma við samfélagsleg vandamál sem fylgja tengslavanda. Raunveruleikinn er nefnilega sá að börn eru fast að 8 klst á dag í leikskólanum sínum að meðaltali. Fólk í fæðingarorlofi lengir jafnvel vistunartíma eldra barns í leikskóla í stað þess að stytta vistunartímann í fæðingarorlofinu og efla tengsl sín við leikskólabarnið. Í vangaveltum Önnu Magneu Hreinsdóttur frá árinu 2019 um skýrslu Eurydice, samstarfsvettvangs Evrópuþjóða á sviði menntamála, kemur fram að dvalartími barna á Íslandi er vel yfir meðaltali samanborið við önnur lönd í Evrópu. Á Íslandi dvelja börn að meðaltali í 37,5 tíma á viku en í öðrum löndum Evrópu í 28 tíma. Hvað er það í íslensku samfélagi sem veldur því að okkar börn virðast þurfa lengri skóladag en börn nágrannaþjóðanna?

Núna sé ég fram á að þau sem hafi tækifæri til komi til með að stytta vistun í sex klukkustundir og þau sem þurfa átta klukkustundir eru þá í örlítið rólegra og vænlegra umhverfi seinni part dags. Við þurfum sem samfélag að fara að taka höndum saman í þágu barna og sameinast um að breyta þessu þjóðfélagsmynstri þar sem það er orðið norm að báðir foreldrar vinni 8 tíma á dag og þar af leiðandi börnin einnig. Ég átta mig á því að þarna er ýtt á viðkvæman jafnréttisblett en erum við ekki komin lengra en það í jafnréttisbaráttunni að það væri eingöngu móðirin sem kæmi til með að minnka við sig vinnu? Ábyrgð ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs til að styðja við barnafjölskyldur er gífurleg. Aukinn sveigjanleiki í umhverfi barnafjölskyldna er til lengri tíma raunveruleg hagsæld samfélagsins. Gleymum því ekki að þetta er í okkar höndum sem samfélags, veljum að bjóða foreldrum upp á vænlega kosti þar sem börnin eru sett í forgang. Kópavogur er núna að taka risastórt skref til að sporna við þessari þróun síðastliðinna ára að það þyki eðlilegt og sjálfsagt fyrir barn á leikskólaaldri að vera í allt of krefjandi umhverfi í allt of margar klukkustundir á dag. Ef starfsfólkið er í umvörpum að sligast undan álagi meðal annars vegna áreitis og hávaða getum við ekki boðið börnum á leikskólaaldri upp á slíkar aðstæður í 8-9 klukkustundir á dag. Þetta er ekki sagt til að valda samviskubiti hjá foreldrum. Við verðum að geta rætt hvað er barni fyrir bestu án þess að hræðast samviskubitið. Það er ekkert hlutverk jafn mikilvægt í lífinu og foreldrahlutverkið og því rík ástæða til að taka til greina ábendingar frá fagfólki, hversu óþægilega sem þær kunna að hljóma. Það fylgir því ábyrgð að eignast barn og um leið og það þarf þorp til að ala upp barn má ekki gleyma því að foreldri er alltaf mikilvægasti umönnunaraðili þess. Í stóra samhenginu er þetta stuttur tími sem um er að ræða en um leið sá mikilvægasti í þroska barnsins.

Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir talar um í bók sinni “Árin sem enginn man” (2009) mikilvægi fyrstu tengsla barns, sem leggja grunn að öðrum tengslum og sjálfsmynd barnsins ævina á enda. Við þurfum því að tryggja barni nálægð við foreldra sína sem veita því öryggi. Sæunn talar einnig um að starfsfólk leikskóla, þar sem nýliðun er ör þarf að deila athygli sinni á fjölda barna og hætt er við að tilfinningalega tengingu skorti. Þá verður til tómarúm í lífi barns sem erfitt getur reynst að fylla upp í, hversu viljugt og samviskusamt sem leikskólastarfsfólkið er gagnvart barninu.

Ég er þakklát og stolt af Kópavogi að þora að taka þetta þarfa og tímabæra framfaraskref með hagsmuni barna sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Höfundur er leikskólakennari og deildarstjóri á Heilsuleikskólanum Urðarhól.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×