Golf

Úr­slitin ráðast á Ís­lands­mótinu: „Geta orðið miklar sviptingar“

Aron Guðmundsson skrifar
Hlynur Geir Hjartarson átti skínandi dag í gær og leiðir Íslandsmótið í karlaflokki fyrir lokahringinn
Hlynur Geir Hjartarson átti skínandi dag í gær og leiðir Íslandsmótið í karlaflokki fyrir lokahringinn GSÍ

Loka­dagur Ís­lands­mótsins í golfi er runninn upp og í dag verða krýndir nýir Ís­lands­meistarar í bæði karla- og kvenna­flokki. Keppnin er hörð, fá högg sem skilja á milli efstu kylfinga og hefur mótið gengið eins og í sögu að sögn Brynjars Eldon Geirs­sonar, fram­kvæmda­stjóra Golf­sam­bands Ís­lands.

Þetta árið fer Ís­lands­mótið fram á Urriða­velli í Garða­bænum og ó­hætt er að segja að að­stæður hafi verið, og séu, eins og best verði á kosið.

„Mótið hefur gengið framar vonum. Veðrið hefur leikið við okkur á þessum keppnis­dögum og þá er Urriða­völlur upp á sitt besta,“ segir Brynjar Eldon í sam­tali við Vísi. „Þetta er völlur sem hefur átt erfitt upp­dráttar, líkt og margir vellir hér á landi, út af tíðinni en ég get með sanni sagt að völlurinn sem verið er að bjóða upp á er stór­kost­legur, alveg til fyrir­myndar.

Við vonumst bara til þess að fólk geri sér ferð hingað upp eftir, sjái völlinn í besta búning og beri okkar frá­bæru kylfinga augum. Spila­mennskan hefur verið frá­bær á mótinu og það eru að falla vallar­met hérna dag eftir dag. Ég hugsa að það verði ekkert annað upp á teningnum í dag.“

Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ.vísir/eyþór

Gríðar­legur á­hugi var hjá kylfingum að komast inn á kepp­enda­lista Ís­lands­mótsins. Alls skráðu sig 200 til leiks en að­eins 153 komust inn á kepp­enda­listann og aldrei hafa jafn­margar konur verið á meðal kepp­enda, alls 48, og er þetta annað árið í röð sem met er slegið yfir fjölda kepp­enda í kvenna­flokki.

Á höttunum eftir sínum fyrstu Ís­lands­meistara­titlum

Spennan er mikil, bæði í karla- og kvenna­flokki nú þegar að efstu kylfingar að loknum þriðja keppnis­degi eru við það að halda út á sinn loka­hring.

Fyrir loka­hringinn var Hlynur Geir Hjartar­son með fjögurra högga for­ystu í karla­flokki á alls tíu höggum undir pari. Hlynur er á höttunum eftir sínum fyrsta Ís­lands­meistara­titli líkt og Ragn­hildur Kristins­dóttir sem var með tveggja högga for­ystu fyrir hring dagsins á alls tveimur höggum undir pari í kvenna­flokki.

„Ég sé fram á mjög mikla spennu í báðum flokkum. Urriða­völlur er nú bara þannig upp­byggður að það geta orðið miklar sviptingar á fáum holum. Þetta er svona golf­völlur sem refsar þér fyrir slæm högg.

Maður finnur það nú þegar að spennan meðal kylfinga er orðin mjög mikil og þá getur allt gerst. Það verða taugar þandar til hins ítrasta í dag, það er alveg ljóst.“

Kjörið að njóta blíðunnar á Urriða­velli

Brynjar Eldon hvetur fólk til þess að gera sér ferð á Urriða­völl í veður­blíðunni sem er ríkjandi á höfuð­borgar­svæðinu í dag og fylgjast með okkar bestu kylfingum berjast um Ís­lands­meistara­titilinn.

„Það kostar ekkert inn og þetta er mjög vel skipu­lagt og að­gengi­legt fyrir á­horf­endur. Við erum með fjöldann allan af sjálf­boða­liðum sem vísar fólki um svæðið og þá er mjög gott stíga­kerfi um allan völlinn og auð­velt fyrir hvern sem er að koma og fylgjast með. Þá er frá­bært veitinga­sala hérna og allt til alls. Ekki vera feimin við að láta sjá ykkur, kjörið að njóta veður­blíðunnar hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×