Golf

Hulda á miklu flugi en Ragnhildur áfram efst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hulda Clara átti skínandi hring.
Hulda Clara átti skínandi hring.

Hulda Clara Gestsdóttir spilaði best allra kvenna á Íslandsmótinu í golfi á Urriðavelli í dag. Ragnhildur Kristinsdóttir heldur þó tveggja högga forystu sinni.

Ragnhildur var efst á tveimur undir pari fyrir hring dagsins, tveimur höggum á undan Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur sem var á pari. Báðar tvær léku þær á pari í dag og staða þeirra því óbreytt.

Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG fór upp að hlið Guðrúnar Brár með besta hring dagsins en hún lék á fjórum höggum undir pari. Hún fékk fimm fugla og einn skolla á hringnum en fór aðrar brautir á pari.

Perla Sól Sigurbrandsdóttir er einu höggi frá þeim Guðrúnu og Huldu en hún lék á tveimur undir pari í dag. Pamela Ósk Hjaltadóttir úr GM lék á þremur undir pari í dag en hún er í áttunda sæti á níu yfir parinu eftir þrjá hringi.

Ragnhildur stendur áfram best að vígi fyrir lokahringinn á morgun en hún hefur spilað afar stöðugt golf á hringjunum þremur hingað til. Eigi Hulda Clara keimlíkan hring og í dag getur hins vegar allt gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×