Skoðun

Að vera hrædd um líf sitt árið 2023

Kolbrún S. Ingólfsdóttir skrifar

Fólk sem fætt er upp úr miðri 20. öld man vel hættuna á kjarnorkustyrjöld sem spáð var í kalda stríðinu. Fólk átti að hafa matarbirgðir, vatn, teppi og annað í kjöllurum eða öðrum „öruggum“ stöðum sem duga ættu gegn kjarnorkugeislun. Þvílík firra sem borin var á borð fyrir okkur. Fólk vonaði að Bandaríkjamenn og Rússar myndu halda friðinn og að ekki kæmi til gereyðingar jarðarinnar. Í Kúbudeilunni í október 1962 stóð heimurinn síðan á öndinni en sem betur fer völdu ráðamenn heimsins friðinn.

Geimferðir fyrir hina ríku

Loftslagsvá hefur legið lengi fyrir. Fyrst kom baráttan við ósongatið, sem fór sífellt stækkandi, sérstaklega hér á norðurhveli jarðar. Næst komu meðal annars takmörkun á ýmsum matvælum, fatnaði, umbúðum, bílanotkun og ferðalögum.

Síðan hafa ráðandi þjóðir fundið sér hvert landsvæðið af öðru víða um heim til að æfa vopnaburð og framleiða sífellt fullkomnari stríðstól með tilheyrandi losun eiturefna út í andrúmsloftið. Við förum einnig að nálgast geimferðir fyrir þá efnameiri sem munu bruna af jörðinni ef gereyðing jarðarinnar yrði að veruleika. Þorri mannkyns myndi farast og hinir „útvöldu“ eða peningaöflin myndu fljúga hraðbyri til nýrra vídda.

Enginn árangur

Þeir sem framleiða mesta losun koltvísýrings á jörðinni eru frekar ótrúverðugir til að leggja niður „vopnin“ til að bjarga hnettinum okkar. Þeir væru frekar tilbúnir til að forða sér út í geim í nokkur ár og virða fyrir sér framvindu mála á jörðunni þaðan. Margar alþjóðlegar ráðstefnur sýna á grátlegan hátt hve lítið þjóðir heims hafa gert í varnarmálum jarðarinnar frá ráðstefnunni í París árið 1995.

Undanfarnar vikur höfum við séð skelfilegar afleiðingar af loftlagsbreytingum. Hvers kyns öfgar hafa aukist í veðurfari jarðarinnar. Manndrápshiti, söguleg úrhelli og flóð ásamt hnefastórum hagélum. Vísindafólkið er búið að vara okkur lengi við.

Það er sem veruleikafirringin sé sú flóttaleið sem flestir stjórnmálamenn taka, í von um að allt reddist að venju eða þannig. En er það raunverulega þannig að þetta reddist?

Höfundur er lífeindafræðingur og sagnfræðingur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×