Golf

Andri leiðir hjá körlunum en Hulda og Ragn­hildur deila for­ystunni kvenna­megin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andri Þór Björnsson leiðir eftir fyrista hring á Íslandsmótinu í golfi.
Andri Þór Björnsson leiðir eftir fyrista hring á Íslandsmótinu í golfi. Aurelien Meunier/Getty Images

Langflestir kylfingar hafa nú lokið leik á fyrsta degi Íslandsmótsins í golfi. Andri Þór Björnsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur leiðir á fjórum höggum undir pari, en í kvennaflokki eru þær Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur jafnar á toppnum.

Andri Þór lék frábærlega á fyrri níu holunum á Urriðavelli í dag þar sem hann fékk alls fimm fugla. Hann náði þó ekki að halda þeirri frábæru spilamennsku áfram á seinni níu og er því með naumt forskot á þá Jóhannes Guðmundsson og Hákon Örn Magnússon sem léku á þremur höggum undir pari.

Í kvennaflokki voru þær Hulda Clara Gestsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir þær einu sem léku undir pari og kláruðu þær báðar á 70 höggum, eða einu höggi undir pari vallarins. 

Andrea Ýr Ásmundsdóttir fylgir þó fast á hæla þeirra á einu höggi yfir pari og þar á eftir koma þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Anna Júlía Ólafsdóttir á tveimur höggum yfir pari.

Íslandsmótið í golfi heldur svo áfram í fyrramálið. Fyrstu kylfingar fara af stað klukkan 07:30 og fylgst verður með gangi mála hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×