Handbolti

Ungverji tekur við á Ísafirði og kemur með kærustu og hund

Sindri Sverrisson skrifar
Harðverjar léku í efstu deild í fyrsta sinn á síðustu leiktíð en féllu og mun nýr þjálfari liðsins, Endre Koi, freista þess að koma liðinu upp á nýjan leik.
Harðverjar léku í efstu deild í fyrsta sinn á síðustu leiktíð en féllu og mun nýr þjálfari liðsins, Endre Koi, freista þess að koma liðinu upp á nýjan leik. Samsett/Hulda Margrét/Hörður

Handknattleiksdeild Harðar hefur fundið nýjan þjálfara í stað Spánverjans Carlos Martin Santos sem yfirgaf félagið á dögunum. Sá er Ungverji og heitir Endre Koi.

Carlos hafði stýrt liði Harðar í fjögur ár og komið því upp í Olís-deild í fyrsta sinn, þar sem liðið lék síðasta vetur en féll í vor. Hann yfirgaf hins vegar félagið, ári áður en samningur hans rann út, í kjölfar misheppnaðrar tilraunar til að komast að sem aðstoðarþjálfari hjá Íslandsmeisturum ÍBV.

Endre Koi hefur skrifað undir samning til tveggja ára við Harðverja og mun hefja störf næstu daga, og á félagið sömuleiðis von á tveimur nýjum leikmönnum á næstu dögum. Nýtt tímabil liðsins í Grill 66-deildinni hefst með leik við ungmennalið Víkings 23. september.

Koi hefur undanfarin fjögur ár verið þjálfari Budai Farkasok í Ungverjalandi og þá var hann aðstoðarþjálfari U21 og U19-landsliða Ungverjalands.

Í tilkynningu Harðverja segir að Koi sé sprenglærður í handboltafræðunum en auk þess menntaður hagfræðingur. Hann komi til Ísafjarðar ásamt kærustu og hundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×