Handbolti

„Er ekki að fara að skora tíu mörk í leik“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander Petersson á æfingu með Rhein-Neckar Löwen.
Alexander Petersson á æfingu með Rhein-Neckar Löwen. mynd/@alexanderpetersson32

Ein óvæntasta íþróttafrétt ársins kom í vikunni er Alexander Petersson tilkynnti að hann hefði rifið skóna niður úr hillunni, 43 ára gamall, og samið við Valsmenn.

„Þetta byrjaði eftir að Snorri hætti með liðið. Þá hitti ég Óskar Bjarna óvart og hann spurði mig hvort ég væri ekki til í að þjálfa Valsliðið með honum,“ sagði Alexander í viðtali við íþróttadeild.

„Ég sagðist ekkert hafa spáð í því. Svo fór ég að tala við konuna mína um hvað ég ætti að fara að gera á Íslandi. Þá fór ég að hugsa um að kannski gæti ég spilað og þjálfað með Óskari. Svo heyrði ég í Óskari og tjáði honum að kannski gæti ég spilað og hjálpað til. Málið komst þá til Bjögga [Björgvins Páls Gústavssonar] og þá þróaðist þetta hratt.“

Alexander er klárlega einn besti handboltamaður þjóðarinnar frá upphafi og hann hlakkar til að byrja að spila á ný.

„Ég er mjög spenntur. Þetta er eins og að byrja ferilinn á ný. Það verður gaman að sjá hvar ég stend. Að sjálfsögðu er ég ekki að fara að skora tíu mörk í einum leik. Ég ætti samt að geta hjálpað strákunum mikið. Mér finnst gott að komast í lið þar sem ég get hjálpað mikið.“

Alexander hefur ekki æft mikið undanfarið ár en eftir tilkynninguna hefur hann farið á handboltaæfingu tvo daga í röð.

„Ég fór kannski á þrjár æfingar síðasta árið. Ég hef verið að hreyfa mig samt mikið og hef ekki verið með neina verki eins og margir fyrrum handboltamenn á mínum aldri. Ég er í góðu standi.“

Viðtalið við Alexander má sjá hér að neðan.

Klippa: Spenntur fyrir að byrja aftur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×