Golf

Komin sjö mánuði á leið á risa­móti í golfi

Sindri Sverrisson skrifar
Amy Olson setti strax stefnuna á að ná US Open eftir að hafa ráðfært sig við kylfinga sem fætt hafa börn.
Amy Olson setti strax stefnuna á að ná US Open eftir að hafa ráðfært sig við kylfinga sem fætt hafa börn. Getty/Raj Mehta

Amy Olson hlakkar til að skapa ógleymanlegar minningar á US Open risamótinu í golfi en hún mun spila á mótinu þrátt fyrir að vera ólétt og komin sjö mánuði á leið.

Olson, sem er þrítug, vann sig inn á mótið með því að spila 36 holur á sex höggum undir pari og verður því með þegar US Open hefst á fimmtudaginn. Mótið fer í fyrsta sinn fram á Pebble Beach, í Kaliforníu, þar sem US Open karla hefur farið fram.

„Þetta verður ein af þessum minningum sem ég mun tala um alla tíð,“ sagði Olson við Golfweek en hún á von á sínu fyrsta barni í september.

„Og það að mótið fari fram á Pebble er mjög svalt. Það er frekar magnað að við verðum tvö þarna saman á gangi um golfbrautina.,“ sagði Olson.

Olson spilaði á Meijer LPGA Classic í síðasta mánuði og náði þar til að mynda holu í höggi auk þess að fá örn tvisvar sinnum.

„Það verður gaman að geta sagt litlum dreng eða lítilli stúlku frá einhverju svona, eins og: „Ég náði holu í höggi, ég náði erni í tvígang, þegar þú varst inni í mér“,“ sagði Olson létt.

„Þessi augnablik verða eitthvað sem við getum átt saman. Auðvitað mun barnið ekki muna eftir þessu en ég mun segja því frá og eiga þessar minningar um alla ævi,“ sagði Olson.

Hún sagðist hafa sent mæðrum á LPGA-mótaröðinni skilaboð og spurt hve lengi fram á meðgönguna þær hefðu getað spilað golf, og komist að þeirri niðurstöðu að það væri möguleiki á að hún gæti spilað á US Open. „Og þetta er á Pebble af öllum stöðum svo að ég hugsaði bara með mér að ég myndi mæta og sjá hvað myndi gerast,“ sagði Olson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×