Handbolti

Ís­lendinga­slagir í báðum riðlum Meistara­deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson lék lykilhlutverk í liði Magdeburg er liðið tryggði sér sigur í Meistaradeild Evrópu á dögunum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson lék lykilhlutverk í liði Magdeburg er liðið tryggði sér sigur í Meistaradeild Evrópu á dögunum. Frederic Scheidemann/Getty Images

Dregið var í riðla í Meistaradeild Evrópu í handbolta fyrir næsta tímabil fyrr í dag og eins og svo oft áður voru nokkur Íslendingalið í pottinum.

Eins og undanfarin ár var dregið í tvo átta liða riðla þar sem leikin verður tvöföld umferð. Að riðlakeppninni lokinni fara tvö efstu lið hvors riðils beint í átta liða úrslitin, en liðin sem hafna í 3.-6. sæti fara í umspil um sæti í átta liða úrslitum. 

Af þeim 16 liðum sem taka þátt í Meistaradeildinni á næsta tímabili eru fjögur Íslendingalið. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon leika með nýkrýndum meisturum í Magdeburg, Bjarki Már Elísson leikur með Telekom Veszprém, Haukur Þrastarson leikur með Barlinek Industria Kielce og þeir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson leika með Kolstad.

Madgeburg, Veszprém og Kielce unnu sér inn sæti í Meistaradeildinni í gegnum deildarkeppnir í sínum heimalöndum, en Kolstad fékk svokallað „wild card“ sem liðið gat sótt um eftir að hafa tryggt sér norska meistaratitilinn.

Eftir Meistaradeildardráttinn er nú ljóst að það verða Íslendingaslagir í báðum riðlunum þar sem hvor riðill fyrir sig fékk tvö Íslendingalið. Kielce og Kolstad verða saman í A-riðli og Veszprém og Magdeburg leika saman í B-riðli.

Vesprém og Magdeburg munu þurfa að kljást við lið á borð við Barcelona, Wisla Plock og GOG, en Kolstad og Kielce munu mæta PSG, Kiel og gPick Szeged svo eitthvað sé nefnt. Þá má einnig nefna að Janus Daði mun mæta sínum gömlu félögum í Álaborg og Sigvaldi mun einnig mæta gömlum félögum þegar Kolstad og Kielce eigast við í Íslendingaslag.

Fyrsta umferð riðlakeppninnar fer fram dagana 13. og 14. september, en dráttinn í heild sinni má sjá hér fyrir neðan eða í Twitter-færslunni hér fyrir ofan.

A-riðill

Barlinek Industria Kielce (Pólland)

Paris Saint-Germain Handball (Frakkland)

THW Kiel (Þýskaland)

HC Zagreb (Króatía)

Aalborg Håndbold (Danmkörk)

OTP Bank – PICK Szeged (Ungverjaland)

HC Eurofarm Pelister (Norður-Makedónía)

Kolstad Handball (Noregur)

B-riðill

GOG (Danmörk)

Telekom Veszprém HC (Ungverjaland)

Barcelona (Spánn)

SC Magdeburg (Þýskaland)

ORLEN Wisla Plock (Pólland)

Montpellier Handball (Frakkland)

FC Porto (Portúgal)

RK Celje Pivovarna Lasko (Slóvenía)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×