Viðskipti innlent

Kea­hótel taka við Hótel Gríms­borgum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Páll L. Sigurjónsson og Helga Guðný Margrétardóttir við Hótel Grímsborgir.
Páll L. Sigurjónsson og Helga Guðný Margrétardóttir við Hótel Grímsborgir. Kea hótel

Kea­hótel hafa tekið við rekstri Hótel Gríms­borga í Gríms­nesi, með undir­ritun samnings þess efnis í dag. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Kea Hótelum.

Þar kemur fram að samningurinn sé til tuttugu ára og nær hann yfir alla starf­semi hótelsins, þar með talið veitinga­stað, funda- og ráð­stefnu­sali og veislu­þjónustu. Gríms­borgir eru tíunda hótelið undir hatti Kea­hótela, sem rekur fyrir hótel í Reykja­vík, Akur­eyri, Vík og á Siglu­firði.

Ólafur Lauf­dal, veitinga­maður, hefur rekið Hótel Gríms­borgir um ára­bil þar til nú. Í til­kynningunni segir að Gríms­borgir verði í megin­at­riðum reknar í ó­breyttri mynd, þar sem á­hersla verður­lögð á fjöl­breytta þjónustu við ferða­menn og fyrir­tæki. Segir að auk glæsi­legrar gisti­að­stöðu fyrir 240 gesti býður Hótel Gríms­borgir upp á mjög góða að­stöðu og þjónustu fyrir hvers kyns fundi og veislur, kynningar, ráð­stefnur, hóp­efli og aðra við­burði.

Haft er eftir Páli L. Sigur­jóns­syni, for­stjóra Kea­hótela, að Hótel Gríms­borgir smell­passi inn í rekstur Kea­hótela og er hann bjart­sýnn á fram­haldið.

„Við tökum við góðu búi og hlökkum til að vinna með frá­bæru starfs­fólki Hótel Gríms­borga, sem hefur náð ein­stökum árangri á undan­förnum árum með góðri þjónustu og að­búnaði. Það er sér­stak­lega á­huga­vert hversu mikil eftir­spurn er eftir funda- og vinnu­ferða­þjónustu frá inn­lendum og er­lendum fyrir­tækjum. Við munum leggja aukna á­herslu á slíkt, enda eru Gríms­borgir stutt frá Reykja­vík og henta því vel í vinnu­tengda þjónustu,” segir Páll.

Helga Guð­ný Margrétar, hótel­stjóri á Hótel Gríms­borgum, tekur í sama streng í til­kynningunni og segir hún mikil tæki­færi fólgin í breytingunni.

„Það er mikil eftir­vænting í okkar hópi og það er gaman verða hluti af einni stærstu hótel­keðju landsins. Við munum bæði læra af öðrum hótelum innan keðjunnar og deila okkar reynslu og þekkingu, til að há­marka á­nægju okkar gesta – hvort sem þeir halda hér upp á brúð­kaups­af­mælið sitt, mæta á vinnu­fundi eða eru á ferð um Gullna hringinn. Það eru spennandi tímar fram­undan,” segir Helga Guð­ný.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.