Golf

128 ára met slegið tvisvar með 22 mínútna millibili á US Open

Siggeir Ævarsson skrifar
Rickie Fowler hélt metinu í 22 mínútu
Rickie Fowler hélt metinu í 22 mínútu Getty

Bandaríski kylfingurinn Rickie Fowler átti sannkallaðan draumahring á US Open í kvöld þegar hann fór völlinn á 62 höggum. Var þetta í fyrsta sinn í 128 ára sögu mótsins sem kylfingi tekst að klára völlinn á færri en 63 höggum.

Fowler var þó ekki lengi í paradís því aðeins 22 mínútum seinni kláraði landi hans Xander Schauffele  völlinn á nákvæmlega sama skori. Þetta er aðeins í þriðja skipti í sögunni sem kylfingur klárar völlinn á 62 höggum í stórmóti. 

Það gerðist í fyrsta sinn árið 2017 þegar Brendan Grace frá S-Afríku náði sama árangri á Opna meistaramótinu á Royal Birkdale. Að slíkt hið sama gerist tvisvar á sama mótinu með 22 mínútna millibili verður að teljast ansi magnað.

Rickie setti í leiðinni annað US Open met, sem hann á einn og óstuddur, en hann náði tíu fuglum þegar hann kláraði þennan draumahring. Áður höfðu fjórir kylfingar mest náð níu á einum og sama hringnum.

Það voru ekki bara met sem glöddu augu áhorfenda á mótinu í dag. Hinn franski Matthieu Pavon gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 15. braut, sem er par þrjú hola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×