Handbolti

„Ég átti kannski frekar von á því að vera valin efnilegust en ekki hinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir og Rúnar Kárason voru valin best í Olís-deildunum í handbolta tímabilið 2022-23.
Elín Klara Þorkelsdóttir og Rúnar Kárason voru valin best í Olís-deildunum í handbolta tímabilið 2022-23. hsí

Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir var valin best og efnilegust á lokahófi HSÍ í gær. Hún ætlar að spila með Haukum á næsta tímabili og reyna síðan að komast í atvinnumennsku erlendis.

„Þetta er mikill heiður. Tímabilið var heilt yfir nokkuð gott,“ sagði Elín í samtali við Vísi eftir lokahófið.

En átti hún von á því að fá bæði verðlaunin?

„Nei, ég átti kannski frekar von á því að vera valin efnilegust en ekki hinu. En þetta er geggjað,“ svaraði Elín.

Hún og stöllur hennar í Haukum áttu frábæra úrslitakeppni þar sem þær töpuðu á endanum fyrir ÍBV í oddaleik í undanúrslitum.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Loksins small liðið saman. Það gerði rosalega mikið fyrir okkur að fá þessa úrslitakeppni og það gekk vonum framar í henni. Þetta var eiginlega bara stórkostlegt,“ sagði Elín sem verður áfram í Haukum.

„Ég ætla að fara í Háskólann í Reykjavík næsta vetur og tek allavega eitt tímabil hérna heima í viðbót með Haukunum og svo sé ég bara hvað gerist.“

Elínu dreymir um að spila sem atvinnumaður erlendis. „Ég ætla klárlega að fara út. Ég veit ekki alveg hvenær en það kemur að því.“

Hún ætlar sér stóra hluti með Haukum á næsta tímabili.

„Við ætlum að byggja ofan á þetta tímabil. Við stóðum okkur vel í úrslitakeppninni. Markmiðið næsta vetur er að vera ofar í deildinni og fara enn lengra í úrslitakeppninni. Ég ætla líka að byggja ofan á það sem ég hef verið að gera og halda áfram að þróa minn leik,“ sagði Elín að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.