Handbolti

Óðinn Þór og Aðalsteinn meistarar í Sviss

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óðinn Þór hefur átt frábært tímabil í Sviss.
Óðinn Þór hefur átt frábært tímabil í Sviss. Kadetten

Aðalsteinn Eyjólfsson og Óðinn Þór Ríkharðsson urðu nú rétt áðan svissneskir meistarar í handknattleik með liði Kadetten Schaffhausen eftir sigur á Kriens í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi.

Kadetten var með 2-1 forystu í einvíginu fyrir leikinn í dag en Kriens vann sigur í algjörum maraþonleik liðanna á sunnudag. Þar þurfti vítakastkeppni til að knýja fram úrslit og óhætt að gera ráð fyrir baráttuleik í dag.

Kadetten var sterkara liðið í fyrri hálfleik í dag. Liðið komst 5-1 yfir strax í upphafi og leiddi 10-5 um miðjan fyrri hálfleikinn. Meira jafnvægi komst í leikinn eftir þetta og munurinn fór aldrei yfir fimm mörk fram að hálfleik. Í hálfleik leiddi Kadetten 19-14 og Óðinn Þór var markahæstur heimamanna með fjögur mörk.

Kadetten byrjaði síðari hálfleikinn vel og komst í sex marka forystu strax í upphafi. Um miðjan síðari hálfleikinn byrjaði Kriens hins vegar að vinna sig inn í leikinn. Þeim tókst að minnka muninn í 28-26 þegar tíu mínútur voru eftir og æsispennandi lokamínútur framundan.

Þar voru heimamenn sterkari. Þeir unnu að lokum 32-28 sigur og tryggðu sér Svissneska meistaratitilinn annað árið í röð. Óðinn Þór skoraði fimm mörk fyrir Kadetten Schaffhausen í leiknum og var markahæstur ásamt tveimur öðrum leikmönnum.

Þetta er í þrettánda sinn sem Kadetten Schaffhausen verður svissneskur meistari í handbolta. Óðinn Þór er á sínu fyrsta tímabili hjá liðinu en Aðalsteinn hefur stýrt liðinu síðan 2020 og er að vinna sinn annan meistaratitil. Aðalsteinn söðlar um í sumar og tekur við þýska liðinu Minden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×