Fyrstu þrír leikir einvígisins höfðu unnist á heimavelli og því eygði Elverum von um að vinna sigur í kvöld og tryggja sér þar með oddaleik á heimavelli Kolstad.
Kolstad byrjaði leikinn í kvöld betur. Liðið komst í 5-1 strax í upphafi og leiddi 10-6 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Heimalið Elverum náði hins vegar góðu áhlaupi undir loka fyrri hálfleiks. Liðið skoraði fimm af síðustu sex mörkunum og leiddi 16-15 í leikhléi.
Elverum hélt frumkvæðinu í upphafi síðari hálfleiks en um hann miðjan náði Kolstad góðum kafla og komst í tveggja marka forystu þegar tíu mínútur voru eftir. Eftir það tókst Elverum aldrei að jafna á nýjan leik. Liðinu tókst að minnka muninn í 28-27 þegar rúm mínúta var eftir en Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði síðasta mark leiksins og innsiglaði titilinn fyrir Kolstad þegar hann skoraði með tuttugu og tvær sekúndur á klukkunni.
Lokatölur 29-27 og Kolstad því Noregsmeistari í handknattleik. Janus Daði skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad í kvöld og Sigvaldi Björn tvö. Orri Freyr Þorkelsson skoraði ekki fyrir Elverum í dag.
Kolstad new Norwegian champions for the first time ever after defeating Elverum away in game 4 tonight.
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) June 7, 2023
They win the treble and have the opportunity to apply for a wildcard for the Champions League. And with the signings, the arenas and so on they are great contenders for a pic.twitter.com/ZFKvScSpog
Þetta er í fyrsta sinn síðan 2011 sem Elverum vinnur ekki sigur í norsku deildinni. Kolstad getur nú sótt um nokkurs konar „wild card“ sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili og yrði liðið þá fært þangað úr Evrópudeildinni.
Lið Kolstad ætlar sér stóra hluti á næstu árum en stórstjarnan Sander Sagosen gengur til liðs við félagið í sumar.