Handbolti

Kolstad einum sigri frá titlinum eftir dramatískan sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigvaldi
Sigvaldi Kolstad

Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru nú aðeins einum sigri frá Noregsmeistaratitlinum í handbolta eftir 30-29 sigur Kolstad á Elverum í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi þeirra.

Staðan í einvíginu var 1-1 fyrir leikinn í dag þar sem bæði lið höfðu unnið sigra á sínum heimavöllum. Leikurinn í kvöld var því algjör lykilleikur og tækifæri fyrir bæði lið að koma sér í lykistöðu.

Líkt og við var að búast var leikurinn jafn og spennandi. Liðin skiptust á að skora í upphafi en gestirnir frá Elverum náðu fjögurra marka forskoti eftir um tuttugu mínútur í stöðunni 12-8. Heimamenn svöruðu þó fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan var 15-14 gestunum í vil að honum loknum.

Í síðari hálfleik hélt spennan svo áfram. Elverum var skrefinu á undan í upphafi en Kolstad náði frumkvæðinu þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Þeir komust í 26-24 en Elverum jafnaði á ný skömmu síðar og eftir það munaði aldrei meira en einu marki á liðunum.

Elverum jafnaði metin í 29-29 þegar tæpar þrjár mínútur eftir og í kjölfarið fóru sóknir forgörðum hjá báðum liðum. Kolstad tók leikhlé með tuttugu og eina sekúndu á klukkunni og þegar fjórar sekúndur eftir skoraði Simen Lyse sigurmarkið fyrir heimamenn og tryggði þeim sætan sigur.

Kolstad er þar með komið í forystu í einvíginu og getur tryggt sér norska meistaratitilinn með sigur í leik fjögur. Janus Daði og Sigvaldi Björn skoruðu báðir fimm mörk fyrir Kolstad í leiknum en Orri Freyr Þorkelsson komst ekki á blað hjá Elverum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×