Á fyrsta ársfjórðungi jókst landsframleiðsla að raungildi um sjö prósent. Sú aukning er oftast þekkt sem hagvöxtur. Hagvöxtur á Íslandi er mun meiri en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum og hefur Seðlabankastjóri varað við því að hagkerfið geti ofhitnað.
Atvinnulífið er á blússandi siglingu og mikil eftirspurn eftir vinnuafli þannig þúsundir útlendinga hafa verið kallaðir til landsins til að sinna eftirspurn eftir vinnuafli.
Hagfræðingur hjá Landsbankanum segir að mikinn mun á hagvexti hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum megi rekja til þess hve hlutfallslega stór ferðaþjónustan er hér á landi. Þá sýni hagvaxtartölurnar fram á að góður gangur sé á flestum stöðum í hagkerfinu.
„Hagvöxturinn er góður, einkaneyslan er góð og hagvöxturinn er líka keyrður áfram á auknum útflutningi. Staðan er að mörgu leyti mjög góð en vandamálið sem vofir yfir er þessi verðbólga sem við erum að sjá,“ segir Hjalti. „En þessar tölur sýna að gangurinn er góður að mestu leyti í hagkerfinu þrátt fyrir þessa miklu verðbólgu. En það þarf jú að ná verðbólgunni niður.“
Aukin einkaneysla ýtir bæði undir aukinn hagvöxt og aukna verðbólgu. Tekið er fram í skýrslu Hagstofunnar um hagvöxtinn að aukin neysla þrátt fyrir hærra neysluverð geti verið vísbending um að heimili séu að einhverju leyti að ganga á sparnað til að ná endum saman. Hjalti segir tvo þætti ýta mest undir aukna einkaneyslu.
„Það eru launahækkanir að mestu leyti. Að einhverju leyti gæti verið að fólk sé enn að ganga á sparnað sem hefur safnast upp í faraldrinum. Þessir tveir hlutir saman skapa verðbólguþrýsting,“ segir Hjalti.