Skoðun

Vaknaðu! - Við þurfum að fræða ekki hræða

Marín Þórsdóttir skrifar

Það var stórkostlegt að verða vitni að því þegar Harpa fylltist upp í rjáfur á neyðartónleikum Ellenar Kristjánsdóttur í Hörpu síðastliðinn mánudag. Setið var í hverju einasta sæti og það var áþreifanlegt hve mikil manngæska ríkti í salnum. Fólk var saman komið til að vekja þjóðina og ráðmenn af værum svefni, á landinu ríkir ópíóíðafaraldur og fólk lætur lífið. Aðgerða er þörf!

Í gegnum tíðina hafa ýmsar aðferðir verið reyndar þegar kemur að forvörnum í fíkniefnamálum. Á áttunda og níunda áratugnum var háð stríð gegn fíkniefnum og á tíunda áratugnum var gerð metnaðarfull tilraun til að gera Ísland vímuefnalaust árið 2000. Slíkar áætlanir hafa ekki skilað árangri. Fólk neytir enn vímugjafa, sumir löglega og aðrir ólöglega. Boð og bönn í þessum málaflokki koma ekki í veg fyrir að fólk neyti vímugjafa og því þarf að breyta um takt þegar kemur að forvörum.

Á tónleikunum í Hörpu var kynnunum, þeim Gunna Hilmars og Siggu Eyþórs, tíðrætt um mikilvægi þess að fræða fólk um rétta meðferð vímuefna í stað þess að hræða fólk frá notkun þeirra. Þessi nýja nálgun snýst um að fræða en ekki hræða! Þetta eru falleg skaðaminnkandi skilaboð og aðferð sem hefur sýnt að hún skilar betri árangri en boð og bönn.

Það er ljóst að íslenska þjóðin er sammála þeim Gunna og Siggu, því í húsfylli Eldborgarsals ríkti samkennd, mannúð og virðing. Það voru ófáir sem tóku upp símann og styrktu starf okkar, keyptu boli og lögðu inn á reikning Rauða krossins. Þannig er okkur hjá Rauða krossinum gert kleift að halda skaðaminnkandi starfinu okkar áfram.

Tónleikarnir í Hörpu marka tímamót þar sem íslenska þjóðin vaknaði af værum blundi. Við hér í Rauða krossinum erum full þakklætis. Við erum þakklát Ellen Kristjánsdóttur fyrir að hendast af stað í verkefni sem flestum myndi fallast hendur gagnvart, þakklát öllum þeim fjölda listamanna sem tóku þátt án þess að hugsa sig tvisvar um (þvílík dagskrá!), þakklát RÚV og starfsmönnum þess sem tóku þátt í þessu svo allir landsmenn gætu notið tónleikanna með okkur, þakklát starfsmönnum Hörpu sem gáfu tónleikunum þessa fallegu umgjörð og þakklát tæknimönnum, róturum og öllum þessum ósýnilegu störfum sem vinna þarf til að svona viðburður geti átt sér stað. Við erum einnig afar þakklát sjálfboðaliðum Rauða krossins, sem ávallt standa vaktina með okkur og gæta þess að borin sé virðing fyrir skjólstæðingum okkar og síðast en ekki síst erum við þakklát íslensku þjóðinni að vakna með okkur í Hörpu.

Við skulum hætta að hræða og fara að fræða fólk um rétta meðferð vímuefna.

Höfundur er Marín Þórsdóttir, deildarstjóri höfuðborgardeildar Rauða krossins á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×