Skoðun

Strandveiðar án kvóta

Magnús Jónsson skrifar

Eins og kunnugt er gaf matvælaráðherra út þá yfirlýsingu í upphafi ferils síns sem ráðherra sjávarútvegsins, að hún vildi með skipun stærstu nefndar sögunnar undir merki “Auðlindin okkar” stuðla að meiri samfélagslegri sátt um alla umgjörð sjávarútvegsins. Hingað til hefur ekki náðst mikill árangur í þessu hjá ráðherra. Þvert á móti hefur henni tekist að skapa úlfúð og deilur meðal smábátasjómann um flest þau mál sem hún hefur lagt fram. Nægir þar að nefna frumvarp um veiðistjórn grásleppu og frumvarp um svokallaða aflvísa þar sem auka á togveiðiheimildir í nafni umhverfisverndar upp í fjörur víða um land. Síðast en ekki síst lagði ráðherra nýlega fram frumvarp um svæðaskiptingu strandveiða, þar sem landshlutum, útgerðar­stöðum umhverfis landið sem og útgerðum smábáta er att saman með því að hverfa til fyrirkomulags við strand­veiðar sem var við líði fyrir 2018 og flestir voru sammála um að væri óhagkvæmt,og hættulegt.

Skemmdarverk á strandveiðikerfinu

Það er umhugsunarefni að á sama tíma og meira en 70% þjóðarinnar sem og landsfundur VG frá sl. vetri, vill efla strandveiðar stórlega gengur ráðherra VG þvert gegn þessum vilja bæði þjóð­arinnar og sinna eigin flokksmanna og hyggst fremja skemmdar­verk á því fyrirkomulagi við strand­veiðar sem góð sátt var um meðal langflestra smábátasjómanna. Fyrirkomulag sem var lögbundið 2018, þ.e. allt að 12 veiðidagar á mánuði fjóra mánaði á ári með stífum takmörkunum á ýmsum sviðum. En því miður var í lögin settur fyrirvari um kvóta á heildarafla alls flotans og stöðvun­arskyldu Fiskistofu á veiðum, færi heildarafli yfir tiltekið magn. Magn sem sagt er ákveðið í nafni vísinda en sem í reynd hefur sáralítið með náttúruvísindi að gera eins og ég hef lært þau. Vísindi sem að allmiklu leyti byggist á tilgátum og tölfræði sem fáir sem koma nálægt fiskveiðum hafa trú á. Er því rétt að skoða vísindalegar forsendur fyrir heildarkvóta á strand­veiðar.

Gagnrýniskýrsla frá 2002 og reynslan síðan

Fyrir rúmum tveimur áratugum fékk þáverandi sjávaútvegsráðherra Árni M. Matthiesen fiski­fræðinginn Tuma Tómasson skólastjóra sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna til að gera úttekt á aðferðum og rannsóknaárangri Hafrannsóknarstofnunar. Kom skýrslanFagleg gagnrýni á stofnmat og veiðiráðgjöf Hafrannóknastofnunarinnar” útárið 2002. Af einhverjum ástæðum fékk þessi skýrsla litla umfjöllun og hafði ég lengi á tilfinningunni að henni hefði verið stungið ofan í skúffu í ráðuneytinu, henni læst og lyklinum hent. En nú hef ég fundið hana á gagnalista “Auðlindarinnar okkar” þótt enn fari engum sögum af umfjöllun um hana þar. Í þessari skýrslu voru einkum teknir til umfjöllunar fjórir meginþættir sem lúta af rannsóknum og ráðgjöf Hafró en þeir eru:

  1. Náttúruleg afföll
  2. Áhrif stærðar hrygningarstofns á viðkomu
  3. Áhrif stofngerðar á afrakstur
  4. Hvort um sé að ræða fleiri en einn stofn

Hafa verður í huga að þegar þessi skýrsla var unnin hafði kvótakerfið verið rekið í tæp 20 ár og og reynsla af ráðgöfinni orðin álíka gömul. Nú hafa bæst við önnur 20 ár og er því áhugavert að skoða hvort það breytir einhverju um fyrri gagnrýni.

Ein af grundvallarforsendum ráðgjafarinnar er að árleg afföll í fiskistofni eða náttúruleg dánatala sé þekkt. Aðeins ein rannsókn hefur farið fram á þessum þætti en hana vann Jón Jónsson fiskifræðingur árið 1960 og fékk þá út að árleg afföll í þorski eldri en 10 ára væru um 18%. Hefur þessi meira en 60 ára gamla rannsókn síðan verið heimfærð upp á alla aldursflokka yfir 3 árum óháð æti, umhverfisaðstæðum í hafinu og samspili við aðra stofna. Tumi bendir á að flestum þyki líklegt að náttúrulegur dauði sveiflist töluvert ekki síst í yngri fiski. Sé hins vegar alltaf gert ráð fyrir sömu afföllum þurfi stöðugt að vera “leiðrétta” útreikninga eða stofnmat aftur í tímann. Þetta hefur sýnt sig vera nánast regla hjá Hafrannsóknastofnun síðustu 20 árin og “leiðréttingin” oft stórfelld (100 þúsund tonn eða meira). Hefur Hafró yfirleitt talað um of- eða vanmat á stofnstærð þótt miklu líklegra sé að breytileikinn í reiknilíkaninu sé fyrst og fremst náttúruleg afföll.

Hér er ekki ástæða til að rekja þær kenningar sem settar hafa verið fram um samspil hrygningar­stofns og nýliðunar enda hefur nánast engin fylgni sést þarna á milli hér við land. Fyrir fáum árum mældi Hafró hrygningarstofninn í þorski meira en 600.000 tonn eða það mesta í um 60 ár. Þetta hafði hins vegar engin sýnileg áhrif á nýliðun og raunar hefur enginn sterkur nýliðunar­árgangur komið fram í þorski í tæp 40 ár. Hafa fiskifræðingar engar skýringar getað gefið á þessu og er kannski eitt besta dæmið um þekkingarskortinn sem enn er til staðar þegar kemur að forsendum ráðgjafarinnar.

Í skýrslu Tuma er bent á að sú meginstefna Hafró að vernda ókynþroska fisk undir 5 ára aldri sé umdeild. Til þess að sú stefna gangi upp þarf náttúruleg dánartala alltaf að vera lág (og föst) og vöxtur einstaklinga óháður stærðarsamsetningu stofnsins. Hvorugu er hins vegar til að dreifa. Þróun í kynþroskaaldri bendir til þess að þessi stefna og þessar forsendur standist alls ekki og að með henni sé stöðugt verið að draga úr afraksturgetu þorskstofnins. Raunar hefur á síðari árum einnig verið rætt um hvort að með þessari nýtingarstefnu sé verið að breyta erfðaeiginleikum stofnsins með algerlega ófyrir­séðum afleiðingum.

Aflamarkskerfið sem tekið var upp 1983 gerir í meginatriðum ráð fyrir að í hafinu umhverfis Ísland sé um einn þorskstofn að ræða. Með tímanum hefur þó komið æ betur í ljós að svo er alls ekki. Mikinn fjölda smærri stofna er hér að finna og þótt um náinn skyldleika sé að ræða eru þessir staðbundnu stofnar meira og minna ótengdir stóra eða stóru stofnunum við Suður- og Vesturland. Þar sem um mismunandi vaxtaraðstæður milli hafsvæða umhverfis landið er að ræða þurfi að beita mismunandi sóknarmynstri og veiðistjórn.

Engar forsendur fyrir heildaraflamarki á strandveiðum

Með vísan til þess sem sagði í skýrslu Tuma frá 2002 og í ljósi reynslunnar síðan tel ég einsýnt að engar þekkingarlegar forsendur voru og eru enn síður í dag fyrir því að setja það magn sem líklega næst með strandveiðum í heildarkvóta. Miðað við þann fjölda báta sem stundar þessar veiðar og breytileika í gæftum og aflabrögðum er afar ólíklegt að heildarafli fari yfir 15.000 tonn. Það er aðeins brot af þeim skekkjumörkum og “leiðréttingum” sem augljóslega eru í árlegri ráðgjöf Hafró. Að halda öðru fram er ekkert annað en blekking eða afneitun á þeirri ófullkomnu og umdeildu þekkingu sem ráðgjöfin byggist á. Því er hér með skorað á stjórnvöld og Alþingi að taka strandveiðarnar út úr heildarkvóta enda vita allir sem vilja vita að handfæraveiðar geta aldrei gengið nærri nokkrum stofni.

Höfundur er veðurfræðingur og formaður Drangeyjar- smábátafélags Skagafjarðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.