Verstappen bar enn og aftur höfuð og herðar yfir andstæðinga sína á öfluga Red Bull Racing bílnum. Hann hélt forystu sinni frá upphafi keppninnar og alveg til enda hennar.
Á seinni stigum keppninnar fór að rigna og setti það stein í götu margra ökumanna sem áttu erfitt með að halda stjórn á bílum sínum.
Rigningin varð ekki til þess að breyta sætaröðun fremstu ökumanna. Verstappen sigldi heim öruggum sigri, Fernando Alonso ökumaður Aston Martin endaði í öðru sæti og Frakkinn Esteban Ocon, ökumaður Alpine tryggði sér sæti á verðlaunapalli með því að enda í þriðja sæti.
Forysta Verstappen á toppi stigakeppni ökumanna stendur nú í 39 stigum en liðsfélagi hans Sergio Perez, sem jafnframt er hans helsti keppinautur, náði ekki að vinna sér inn stig í keppni dagsins eftir að hafa ræst aftastur.