KKÍ stendur fyrir söfnunarátaki til að minnka kostnað leikmanna unglingalandsliðanna í sumar. Í færslu sambandsins segir að þeir leikmenn sem þurfi að greiða mest þurfi að útvega 650.000 krónur, til að geta verið með á vikulöngu Norðurlandamóti og hátt í tveggja vikna löngu Evrópumóti.
„Afreksstarf og þá sérstaklega yngri landssliða á undir högg að sækja. Óskandi væri að stuðningur ríkisvaldins við ungt afreksíþróttafólk á Íslandi væri viðunandi en það er langur vegur í að svo sé,“ segir í færslu KKÍ þar sem fólk og fyrirtæki eru hvött til að styrkja unglingana til þátttöku.
Hannes deilir færslunni á Facebook og segir þar að 250 milljóna króna aukaframlag frá ríkinu myndi duga fyrir keppnisferðum yngri landsliða í öllum íþróttagreinum á árinu.
Hann segir kostnaðinn við yngri landslið KKÍ á þessu ári nema um 80 milljónum króna og að eins og staðan sé núna þurfi leikmenn og fjölskyldur þeirra að greiða 50 milljónir króna.
KKÍ var í lok síðasta árs fært niður um flokk hjá Afrekssjóði ÍSÍ, með tilheyrandi tekjutapi fyrir sambandið. Á vef KKÍ segir að mikil vinna sé í gangi varðandi Afrekssjóð á vegum ríkisvaldsins, ÍSÍ og sérsambandanna en að því miður muni engin breyting verða á þessu ári.