Körfubolti

Haukur Helgi til Álftaness

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson ásamt Hugin Frey Þorsteinssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Álftaness.
Haukur Helgi Pálsson ásamt Hugin Frey Þorsteinssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Álftaness. álftanes

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur samið við nýliða Álftaness í Subway deild karla.

Hann er annar landsliðsmaðurinn sem Álftanes fær en í síðustu viku samdi Hörður Axel Vilhjálmsson við nýliðana.

Haukur hefur verið einn fremsti körfuboltamaður þjóðarinnar um langt árabil. Hann hefur leikið 74 landsleiki og lék með landsliðinu á EM 2015 og 2017.

Undanfarin tvö tímabil hefur Haukur leikið með Njarðvík. Hann varð bikar- og deildarmeistari með liðinu 2021.

„Uppgangurinn á Álftanesinu hefur verið eftirtektarverður og verður gaman að skrifa söguna með því að taka þátt í fyrsta tímabili félagsins í efstu deild. Metnaðurinn í félaginu er mikill. Leikmannahópurinn er sterkur og ég er viss um að við getum látið góða hluti gerast. Ég er fullur tilhlökkunnar að mæta í Forsetahöllina,“ segir Haukur í fréttatilkynningu frá Álftanesi.

Haukur lék lengi sem atvinnumaður í Svíþjóð, Frakklandi, Rússlandi og á Spáni. Þá lék hann einn vetur með Maryland háskólanum í Bandaríkjunum.

Álftanes vann sér sæti í Subway deildinni á síðasta tímabili og leikur því í fyrsta sinn í efstu deild á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×