Pavel tók við liði Tindastóls á miðju tímabili og hans hlutverk var skýrt: Að koma Íslandsmeistaratitlinum á Sauðárkrók.
„Pavel er náttúrulega einstakur persónuleiki og hárrétta persónan til að taka við Tindastól á þessum tímapunkti. Hann kemur með ofboðslega einfalda hluti á borðið, taktíska en góða og er ekkert of mikil að fara í einhver flókin kerfi,“ sagði sérfræðingurinn Hermann Hauksson í viðtali við Guðjón Guðmundsson íþróttafréttamann.
„Hann einhvern veginn tekur þá á það stig að hann fær þá til að hugsa rétt og ná andanum rétt. Það var eiginlega það sem vantaði við þetta lið Tindastóls. Það sem hann tók við var gott lið en hann gerði þá andlega betri.“
Hermann segir þó að hann hafi ekki alveg séð það fyrir að Pavel myndi stýra Stólunum til Íslandsmeistaratitils á fyrsta tímabili sem þjálfari í Subway-deildinni.
„Löngunin var til staðar að þetta myndi gerast af því einhver veginn þykir manni það vænt um Pavel, af því hann er KR-ingur og ágætis vinur manns. Mér finnst þetta rosalega falleg saga að þetta skyldi enda svona.“
Allt spjall þeirra Gaupa og Hermanns má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en þar kemur Hermann meðal annars inn á Pavel sem leikmann og þá geðshræringu sem átti sér stað á meðal stuðningsmanna Tindastóls eftir að lokaflautið gall í Origo-höllinni á fimmtudag.