Handbolti

Biðin langa lengist og formaðurinn þegir þunnu hljóði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, gefur engin færi á sér í leitinni ströngu að nýjum landsliðsþjálfara.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, gefur engin færi á sér í leitinni ströngu að nýjum landsliðsþjálfara. vísir/egill

Það er 71 dagur síðan HSÍ tilkynnti að Guðmundur Guðmundsson hefði hætt störfum sem þjálfari karlalandsliðsins í handbolta. Enn bólar ekkert á arftaka Guðmundar.

Eðli málsins samkvæmt hafa landsliðsþjálfaramálin mikið verið í deiglunni síðustu vikur. Ekki síst eftir að Dagur Sigurðsson varpaði sprengju í umræðuna þann 18. apríl síðastliðin.

Dagur staðfesti þá óformlegar viðræður við HSÍ. Fimm vikum eftir fundinn hafði hann ekkert heyrt aftur frá sambandinu.

„Þetta var vísir að einhverju leikriti og ég skynjaði það mjög snemma,“ sagði Dagur meðal annars í viðtali við Vísi og bætti við að hann ætlaði sér ekki að vinna með þessum mönnum sem stýra HSÍ.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, ætlaði sér í fyrstu að bregðast við þessum ummælum Dags en hætti síðar við. Síðan þá hefur nánast verið ógerningur að ná af honum tali.

Hann svaraði þó símtali íþróttadeildar í morgun en vildi ekki tjá sig um stöðu mála í þjálfaraleitinni frekar en áður.

Samkvæmt heimildum hefur Guðmundur reynt að semja við norska þjálfarann Christian Berge sem þjálfar Kolstad. Án árangurs til þessa.

Samskiptafulltrúi Kolstad tjáði Vísi að Berge vildi ekkert tjá sig um viðræðurnar við HSÍ þegar eftir því var leitað. Nýjustu tíðindi herma að Berge hafi hafnað HSÍ en það hefur ekki fengist staðfest.

Guðmundur formaður var á ársþingi HSÍ á sunnudag spurður út í stöðu mála í leitinni að arftaka Guðmundar. Svörin til hreyfingarinnar voru fátækleg og félögin vita því lítið hver staðan á málinu er.

Dagur 72 í leitinni er á morgun og verður áhugavert að sjá hvað gerist í framhaldinu.


Tengdar fréttir

„Kannski þarf hreyfingin að fara í nafla­skoðun“

„Mér finnst þetta búið að taka alltof langan tíma í fyrsta lagi,“ segir Ásgeir Örn Hallgrímsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta sem nú þjálfar Hauka í Olís deild karla, um leit Handknattleikssambands Íslands að nýjum þjálfara fyrir karlalandsliðið.

Segja HSÍ halda Val í gíslingu: „Þetta eru galin vinnubrögð“

Munu ummæli Dags Sigurðssonar um forráðamenn HSÍ fæla erlenda þjálfara frá starfi landsliðsþjálfara Íslands? Þetta var meðal þess sem Arnar Daði Arnarsson og gestir hans veltu fyrir sér í Handkastinu. Þeir sögðu einnig að HSÍ héldi Val í gíslingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×