Handbolti

Nálgun Vals harð­lega gagn­rýnd: „Ekki bara eitt­hvað sem þú opnar í Cocoa-puffs pakka“

Aron Guðmundsson skrifar
Brúnaþungur Snorri Steinn á hliðarlínunni þar sem Valsmenn voru niðurlægðir af Haukum.
Brúnaþungur Snorri Steinn á hliðarlínunni þar sem Valsmenn voru niðurlægðir af Haukum. vísir/hulda margrét

Ríkjandi Ís­lands­­meistarar Vals í hand­­bolta voru á dögunum sendir í snemm­búið sumar­frí með hvelli þegar að liðið stein­lá gegn Haukum í 8-liða úr­­slitum Olís deildar karla. Loka­­tölur í Hafnar­­firði voru 33-14 Haukum í vil og í nýjasta þætti Hand­kastsins var staðan hjá Vals­­mönnum rædd.

Vals­menn mættu særðir til leiks í einvígið gegn Haukum með lykil­menn fjar­verandi vegna meiðsla en eitt og sér var ekki á­stæðan fyrir því að liðið skoraði að­eins fjögur mörk í fyrri hálf­leiknum í leiknum gegn Haukum.

„Höfum það al­veg á hreinu að frammi­staða Vals var til skammar og Snorri Steinn viður­kenndi það og sagði það bara rétti­lega,“ sagði Arnar Daði Arnars­son, um­sjónar­maður Hand­kastins. „Á­stæðan fyrir því að ég talaði um að Valur ætti ekki séns í Haukana í þessum leik var ekki vegna meiðsla Bene­dikts, Magnúsar eða Róberts.



Heldur út frá þeirri stað­reynd hvernig Valur hefur verið að spila undan­farna tvo mánuði. Frammi­staða liðsins er bara búin að vera til skammar síðustu vikur. Þeir hafa tapað átta leikjum í röð, sex af þessum leikjum hafa verið búnir í hálf­leik.“

Ekki bara eitt­hvað sem þú opnar í Coco-puffs pakka

Arnar Daði varpaði þá fram spurningum varðandi það hvernig spilað hefur verið á Vals­liðinu á yfir­standandi tíma­bili en nóg hefur verið að gera hjá liðinu, bæði hér heima fyrir sem og í Evrópu­keppni. Leik­menn á borð við Aron Dag Páls­son sitji á bekknum meira og minna fyrstu um­ferðir tíma­bilsins.

„Agnar Smári er brjálaður og spilar lítið sem ekkert í upp­hafi tíma­bils, hann kemur ekki inn á í fyrstu Evrópu­leikjunum. Tryggvi Garðar spilar ekki mínútu fram í miðjan nóvember og þá vegna þess að hann er til­neyddur vegna meiðsla annarra leik­manna. Þá hefur Sakai Motoki varla spilað.

Agnar Smári í leik með Val á yfirstandandi tímabiliVísir/Pawel Cieslikiewicz

Þarna sé búið að telja til þó nokkuð marga leik­menn.

„Vignir Stefáns­son spilaði lítið sem ekkert, Bene­dikt Gunnar Óskars­son bara spilaði og spilaði. Hann er bara lítill og léttur, gat alveg spilað en er það þjálf­fræði­lega rétt að láta Bene­dikt spila svona ó­trú­lega mikið?“ bætti Arnar Daði við.

Nú spyrji menn sig að því hvernig Valur, vitandi það í júlí að fram undan væru tíu Evrópu­leikir og um er að ræða stórt fé­lag innan hand­boltans á Ís­landi, hvernig styrktar­þjálfun liðsins sé háttað.

„Þeir eru ekki einu sinni með styrktar­þjálfara,“ sagði Arnar Daði í Hand­kastinu. „Leik­menn Vals hoppuðu yfir götuna og fóru í af­rek, sem er ein­hver Cross­fit stöð. Hvernig er endur­hæfingu eftir leiki háttað hjá liðinu? Hvernig eru styrktar­æfingar leik­manna á miðju tíma­bili? Þetta er ekki bara eitt­hvað sem þú opnar í Coco-puffs pakka og gerir bara ein­hvern vegin. Þetta er bara jafn mikil­vægt og það hvernig þú stillir upp vörn, hvernig þú spilar sókn og hvernig þú rúllar liðinu.

Það er með ó­líkindum að fé­lag eins og Valur, sem státar sig af því að hafa unnið ein­hverja sjö titla í röð og að vera með lands­liðs­menn innan sinna raða, bjóði ekki upp á betra um­hverfi. Af hverju eru leik­menn á leiðinni í Val þegar að um­hverfið er ekki betra en þetta?“

Um­ræðan um Val hefst á 29. mínútu þáttarins en hana sem og þátt Handkastsins í heild sinni má hlusta á hér fyrir neðan: 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×