Handbolti

Elvar hetjan í ótrúlegri endurkomu Ribe-Esbjerg gegn Álaborg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar jafnaði metin á lokasekúndu leiksins.
Elvar jafnaði metin á lokasekúndu leiksins. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson og samherjar hans í Álaborg naga sig eflaust í handarbökin eftir ótrúlegt hrun liðsins gegn Ribe-Esbjerg þegar liðin mættust í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld.

Úrslitakeppni danska boltans fer þannig fram að efstu átta liðin keppa í tveimur fjögurra liða riðlum en tvö efstu lið riðlanna komast áfram í undanúrslit. Tvö efstu lið deildakeppninnar taka með sér tvö stig í sitt hvorn riðil úrslitakeppninnar og liðin í þriðja og fjórða sæti taka með sér eitt stig hvort.

Álaborg mætti í dag liði Ribe-Esbjerg en Álaborg varð deildarmeistari en Ribe-Esbjerg endaði deildakeppnina í 8. sæti. Aron Pálmarsson leikur með liði Álaborgar en í liði Ribe-Esbjerg eru þrír Íslendingar, markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson auk þeirra Elvars Ágeirssonar og Arnars Birkis Hálfdánarsonar.

Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Álaborg í kvöld.Vísir/Vilhelm

Álaborg var með frumkvæðið lengst af í leiknum í dag og leiddi 10-6 um miðjan fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 18-15 fyrir gestina sem hefur á að skipa afar sterku liði.Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt. Álaborg komst fimm mörkum yfir í upphafi og leiddi 33-27 þegar fimm mínútur voru eftir.

Þá hófst hins vegar ótrúleg endurkoma Ribe-Esbjerg. Liðið skoraði síðustu sex mörk leiksins og það var Elvar Ásgeirsson sem jafnaði metin í 33-33 á lokasekúndunni. Ótrúlegur endir á leiknum en Álaborg leiddi 33-31 þegar átján sekúndur voru eftir.

Elvar átti góðan leik í liði Ribe-Esbjerg og skoraði fimm mörk úr sex skotum auk þess að gefa fimm stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson varði átta skot í markinu en Arnar Birkir komst ekki á blað. Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk úr átta skotum fyrir Álaborg auk þess að gefa sex stoðsendingar.

Álaborg er með þrjú stig í efsta sæti riðilsins en Ribe-Esbjerg með eitt stig líkt og KIF Kolding sem tapaði fyrir Skjern í gær.

Þá mættust lið Nordsjælland og Holstebro í keppni neðstu liða deildarinnar þar sem barist er um sæti sitt í dönsku úrvalsdeildinni. Halldór Jóhann Sigfússon er þjálfari liðs Holstebro en hann tók við sem aðalþjálfari nú í febrúar.

Leiknum í dag lauk með 29-29 jafntefli og er Holstebro í öðru sæti umspilsins en fimm lið taka þátt. Holstebro er með þrjú stig eftir að hafa tekið tvö stig með sér úr deildakeppninni þar sem liðið endaði í 10. sæti deildakeppninnar en fimm af sex neðstu liðum deildarinnar taka þátt í umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×