Handbolti

Icelandair býður áhorfendum frítt á völlinn | „Þurfum á góðum stuðningi að halda“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arnar Pétursson er á leið í krefjandi verkefni með íslenska landsliðið í handbolta.
Arnar Pétursson er á leið í krefjandi verkefni með íslenska landsliðið í handbolta. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska landsliðið í handbolta mætir Ungverjalandi í umspili um laust sæti á HM 2023. Leikurinn fer fram að Ásvöllum í Hafnarfirði á morgun og vonast landsliðsþjálfarinn eftir því að áhorfendur fylli kofann.

Íslenska liðið hefur æft saman undanfarna daga og Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, var til viðtals eftir æfingu liðsins í gær.

„Stemningin er mjög góð. Okkur hlakkar mikið til að mæta þessa ungverska liði og erum búin að vera að bíða eftir þessu,“ segir Arnar.

Um er að ræða tveggja leikja einvígi og mun sigurvegarinn tryggja sér farseðil í lokakeppni HM. Fyrri leikurinn á Ásvöllum á morgun en sá síðari í Ungverjalandi þann 12.apríl næstkomandi.

„Það er engin spurning að þær eiga að teljast töluvert sterkara lið í þessu einvígi. Þær hafa verið inni á öllum stórmótum og ná í góð úrslit þar. Þær eru að byggja upp lið, eru með ungar stelpur sem hafa orðið heims- og evrópumeistarar í yngri landsliðum undanfarin ár. Þær eru sterkar en það verður gaman að mæta þeim,“ segir Arnar.

Frítt verður á leikinn í boði Icelandair en leikurinn hefst klukkan 16:00 og segir Arnar það mikilvægt fyrir sitt lið að fá góðan stuðning úr stúkunni.

„Við þurfum að eiga mjög góðan dag; hámarka okkar leik. Við ætlum að spila okkar bolta og sjá hvar við stöndum. Ég hef trú á að við getum gert góða hluti hérna á heimavelli og strítt þeim. Það væri óskandi að hafa fullt hús. Við þurfum á því að halda að fá góðan stuðning til að ná fram okkar besta leik.“

Nánar er rætt við Arnar í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari í handbolta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×