Golf

Þrír kylfingar efstir og jafnir eftir fyrsta dag Masters

Smári Jökull Jónsson skrifar
Viktor Hovland og Tiger Woods fylgjast með Xander Schauffele slá teighögg af tólfta teig í dag.
Viktor Hovland og Tiger Woods fylgjast með Xander Schauffele slá teighögg af tólfta teig í dag. Vísir/Getty

Þrír kylfingar eru efstir og jafnir eftir fyrsta dag Masters risamótsins í golfi. Tiger Woods mun há baráttu við niðurskurðarlínuna á morgun og hæðir og lægðir einkenndu daginn hjá Rory McIlroy.

Norðmaðurinn Viktor Hovland gaf tóninn strax á annarri braut í dag þegar hann náði erni en hann var með besta skorið þegar hann lauk keppni og kláraði fyrsta hringinn á sjö höggum undir pari.

Jon Rahm byrjaði fyrstu holuna á tvöföldum skolla en vann sig heldur betur til baka og var jafn Hovland þegar hann kláraði 18. holuna. Brooks Koepka er sömuleiðis á sjö höggum undir pari en hann náði alls átta fuglum á hringnum en lék þrettándu brautina á skolla.

Fimmfaldi sigurvegari á Mastersmótinu Tiger Woods er á meðal keppenda á Augusta vellinum og átti misjafnan dag. Hann var kominn þrjú högg yfir par eftir sjö holur en lauk keppni á tveimur yfir eftir svekkjandi skolla á átjándu braut. Dagurinn var sömuleiðis nokkuð erfiður hjá Rory McIlroy. Norður-Írinn fékk fimm fugla en þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla þar að auki og lauk keppni á pari.

Meistarinn frá því í fyrra, Scottie Scheffler, lék ágætlega í dag. Hann kláraði hringinn á fjórum höggum undir pari en Scheffler var í smá vandræðum með púttin.

Spáð er rigningu á morgun sem og á laugardag á mótssvæðinu sem gæti haft áhrif á skor keppenda. Eftir morgundaginn verður skorið niður og er búist við að niðurskurðarlínan verði tveir yfir par og liggja skipuleggjendur mótsins eflaust á bæn um að Tiger Woods komist í gegnum niðurskurðinn.

Masters mótið er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 og hefst útsending á morgun klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×