Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 31-36 | Ó­trú­legur sigur Hauka

Andri Már Eggertsson skrifar
Haukar mæta Herði í síðustu umferð Olís deildar karla.
Haukar mæta Herði í síðustu umferð Olís deildar karla. vísir/diego

Haukar unnu frábæran sigur á deildarmeisturum Vals og þurfa nú aðeins sigur gegn Herði til að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni. Valsmenn virka hins vegar þreyttir og misstu tvo leikmenn út í kvöld. 

Magnús Óli Magnússon minnti á sig strax á upphafs mínútunum þar sem hann skoraði fyrstu þrjú mörk Vals. Næsti leikmaður Vals komst á blað eftir tæplega níu mínútur.

Haukar voru mættir til að selja sig dýrt enda í harðri baráttu um að komast inn í úrslitakeppnina. Valur komst mest tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik en Haukar jöfnuðu leikinn í stöðunni 8-8.

Gestirnir úr Hafnarfirði gerðu vel í að finna línuna sem gerði vörn Vals mjög erfitt fyrir. Heimir Óli Heimisson og Þráinn Orri Jónsson skoruðu þrjú mörk hvor í fyrri hálfleik.

Haukar enduðu fyrri hálfleik frábærlega og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik. Heimamenn gerðu mikið af mistökum sóknarlega og skoruðu ekki mark á síðustu fjórum mínútum fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 14-18.

Þrátt fyrir lengsta hálfleik sögunnar þar sem klukkan komst ekki í gang og það tók langan tíma að reyna að laga hana en á endanum fór seinni hálfleikur af stað. Haukar gáfu ekkert eftir og byrjuðu seinni hálfleik afar vel og komust níu mörkum yfir 16-25.

Valur var svo sannarlega ekki að fara að leggja árar í bát. Heimamenn skoruðu fjögur mörk í röð um miðjan seinni hálfleik og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk þegar tæplega tólf mínútur voru eftir. 

Haukar unnu að lokum fimm marka sigur 31-36.

Af hverju unnu Haukar?

Haukar mættu til leiks með tvö slæm töp á bakinu. Haukar töpuðu í bikarúrslitum og síðan í deildinni gegn Gróttu með einu marki. 

Haukar svöruðu mótlætinu af mikilli fagmennsku og spiluðu frábærlega í kvöld. Haukar áttu gott áhlaup undir lok fyrri hálfleiks og héldu áfram að spila frábærlega á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks sem skilaði sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðmundur Bragi Ástþórsson fór á kostum og var markahæstur hjá Haukum með níu mörk úr ellefu skotum. Guðmundur Bragi var einnig duglegur að finna liðsfélaga sína þar sem hann gaf tíu stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Það eru ansi margir farnir að hellast úr lestinni hjá Val. Í kvöld vantaði Róbert Aron Hostert sem hefur verið lengi frá. Benedikt Gunnar Óskarsson og Agnar Smára Jónsson voru ekki í hóp vegna meiðsla. Magnús Óli Magnússon meiddist síðan um miðjan seinni hálfleik. 

Valur átti í miklum vandræðum með línumenn Hauka. Samanlagt skoruðu Heimir Óli Heimisson og Þráinn Orri Jónsson tíu mörk.

Hvað gerist næst?

Haukar fara til Eyja á miðvikudaginn og mæta ÍBV klukkan 19:30. Á sama tíma eigast við Stjarnan og Valur í TM-höllinni. 

„Ég er í skýjunum með þetta“

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sigur kvöldsins.Vísir/Diego

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sigurinn.

„Ég var ógeðslega ánægður með strákana og þennan sigur. Þetta voru dýrmæt stig fyrir okkur og ég er í skýjunum,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson afar ánægður með sigurinn.

Haukar spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik þar sem þeir skoruðu 18 mörk.

„Við lögðum upp með að vera ekki að flýta okkur heldur setja pressu á þá sem gekk vel. Síðan í seinni hálfleik voru fyrstu tíu mínúturnar mjög mikilvægar og við vissum að það yrði mikilvægt að byrja seinni hálfleik af krafti.“

Valur skoraði fjögur mörk í röð um miðjan seinni hálfleik en sigur Hauka var aldrei í hættu og Ásgeir var ánægður með hvernig Haukar svöruðu áhlaupi Vals.

„Við vissum að Valur myndi koma með áhlaup og síðan fóru menn að detta út í meiðsli og þá varð minna úr áhlaupinu en Valur vildi,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira